131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[15:50]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er útúrsnúningur á orðum mínum að ég sé að gagnrýna Orkustofnun eða einstaka starfsmenn þar fyrir að vera vanhæfir í starfi sínu. Það er algjör misskilningur og varla sæmandi ráðherra að túlka orð mín með þeim hætti. Það sem ég er einfaldlega að segja er það að Orkustofnun er ekki búin til þess að fjalla um umhverfisþátt svona mála. Ég veit að þar eru menn sem eru bæði náttúruelskendur og hafa gott vit á umhverfismálum en það þýðir ekki að stofnunin sé búin til þess.

Sá skilningur sem hæstv. iðnaðarráðherra kom fram með í ræðu sinni áðan þegar hún fagnaði og tók undir orð mín um nýtingu og að vernda ristir ekki mjög djúpt hjá hæstv. ráðherranum því að hér kom hún aftur núna og sagði nýta, nýta, nýta en ekki vernda, vernda, vernda. Hún skilur ekki að þetta eru tvær hliðar á sama peningi. Málið fjallar um stjórnun og gæslu auðlindarinnar. Sú stjórnun og gæsla á, með fullri virðingu fyrir atvinnuráðuneytum sem þurfa að vera til og helst bara eitt, ekki að fara fram í þeim ráðuneytum, heldur með almennri stjórnsýslu í ráðuneyti af tagi umhverfisráðuneytisins.