131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[15:52]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Hérna hefur verið rætt um að von sé á einhverri tilskipun frá Evrópusambandinu og að rétt hefði verið að ræða lögfestingu hennar samhliða þessu frumvarpi. Það er hægt að taka undir það sjónarmið að vissu leyti en ýmsar reglur sem varða vatn hafa verið lögfestar, m.a. reglugerð um varnir gegn mengun vatns. Hún er kölluð pollareglugerðin vegna þess að það á að fara í mjög miklar mælingar á hinum og þessum eiturefnum og mengunarefnum sem varla fyrirfinnast hér á landi. Þetta er eitthvað sem kemur frá Evrópu og sveitarfélögin í landinu eiga fullt í fangi með að framfylgja þessari reglugerð.

Mig langaði að ræða það hér að nú er verið að breyta eignarréttinum. Það er verið að auka hann, eða e.t.v. öllu heldur séreignarréttinn. Þá er vert að spyrja í framhaldinu hvort þessum eignarrétti — þegar menn fá aukinn rétt til að fénýta náttúruauðlindina ef ég skil hæstv. ráðherra rétt — fylgi einhverjar skyldur. Er þá hætta á því að þessar reglugerðir sem eru eins og þungt farg á sveitarfélögunum muni flytjast af þeim og að einhverju leyti yfir á landeigendur? Það væri mikil byrði að fá þessar reglugerðir.

Þarna er verið að auka séreignarrétt og rétt þeirra til að nýta náttúruauðlindirnar — fylgja því einhverjar skyldur? Það væri fróðlegt að fá það fram hér í umræðunni.