131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[15:58]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur mér svo sem ekki á óvart að hv. þingmaður tortryggi eitthvað af því sem ég segi. Reynslan og sagan hefur kennt mér það.

Ef við stæðum ekkert í því að virkja hér á Íslandi værum við einfaldlega rafmagnslaus. Það er bara svo einfalt. Við getum ekki framleitt rafmagn öðruvísi en að virkja, hv. þingmaður. Þess vegna höfum við verið að því.

Ef hv. þingmaður er með stóra verkefnið á Austurlandi í huga, Kárahnjúkavirkjun, í þessu sambandi stenst ég ekki þá freistingu að benda á umhverfisverndarsjónarmiðið sem kemur fram í tengslum við þá framkvæmd alla. Rafmagnið er notað til þess að framleiða ál eins og þekkt er. Ef þetta ál væri framleitt einhvers staðar annars staðar í heiminum, t.d. með kolum, rafmagni sem framleitt væri úr kolum, (KolH: Ætlið þið að … málstaðinn?) væri um sjö sinnum meiri gróðurhúsaáhrif að ræða fyrir heiminn. Framkvæmdin sem slík er ákaflega umhverfisvæn. Þetta veit ég að hv. þingmaður þekkir allt saman mjög vel.

Svo eru það lögin í Noregi. Þau voru höfð til hliðsjónar og úr þeim var notað það sem þótti henta hér. Það er gríðarleg vinna sem liggur að baki gerð þessa frumvarps. Eitt af því sem var gert var að skoða hvernig aðrar þjóðir fara með þennan málaflokk og standa að málum og þar er yfirleitt litið snemma til Noregs.