131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[16:00]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég gef ákaflega lítið fyrir svör hæstv. ráðherra varðandi verkefnið fyrir austan, eins og hún kýs að kalla það í ræðu sinni. Ágæti þess og umhverfissjónarmið hennar í þeim efnum má öll hrekja þótt ég hafi ekki tíma til þess í tveggja mínútna andsvari.

Ég vil fylgja örlítið eftir því sem ég hef gagnrýnt, þ.e. því hve fyrirferðarmikill nýtingarþátturinn er. Ég hef spurt að því hvers vegna í ósköpunum við fáum ekki samhliða frumvarpi þessu inn í þingið annað frumvarp, sem þó er boðað í greinargerð með frumvarpinu. Hverjar eru ástæður þess að ekki var beðið eftir því frumvarpi sem er, eins og fram kemur, í undirbúningi?

Það er einnig ljóst, hæstv. forseti, að hæstv. iðnaðarráðherra gaf yfirlýsingu um það að rammaáætlunin héldi áfram, að hafin sé vinna við annan áfanga hennar. En ég hef upplýsingar um að sá áfangi hafi verið unninn af færri einstaklingum en sá fyrri (Forseti hringir.) og tortryggi þar með vinnubrögðin sem þar eru viðhöfð, sem ég tel ekki nógu vönduð.