131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[16:01]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka að það er ekki um skörun að ræða hvað varðar vatnsverndarfrumvarpið. Mér leiðist frekar sá málflutningur sem oft kemur fram hér, að það eigi alltaf að bíða eftir einhverju öðru. Það á alltaf að bíða. Menn spyrja alltaf hvort það sé ekki betra að bíða með þetta frumvarp, eftir næsta frumvarpi o.s.frv. Þetta er mjög algengt og ég tel að það sé einhver verkhræðsla sem kemur fram hjá háttvirtum þingmönnum.

Auðvitað einhendum við okkur í að vinna að þessu frumvarpi. Þetta er vel búið frumvarp og ég treysti iðnaðarnefnd ákaflega vel til að ljúka því í vetur, að frumvarpið verði tilbúið til samþykktar á vorþingi.