131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[17:00]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Það er sjálfsagt að gera það. Það er það sem ég hef reynt í fyrri ræðu minni, seinni ræðu minni og þeim andsvörum tveimur sem ég hef nú átt í við hæstv. iðnaðarráðherra. Ég tel að þetta eigi að vera þannig, forseti, að auðlindastjórnun sé á vegum hins opinbera sem fulltrúa almennings í landinu. Ég tel að það eigi að vera þannig að þegar kemur að hlutum eins og vatni, hvort sem um er að ræða grunnvatn, rennandi vatn í vatnsföllum eða stöðuvatn, eigi fyrst að líta til almannahagsmuna í þessu efni og að það séu ekki bara almannahagsmunir okkar sem nú erum uppi, okkar sem nú borgum skatta eða kjósum á þing, heldur séu það almannahagsmunir bæði þeirra kynslóða sem á eftir koma, sem eiga að vera jafngildir okkar hagsmunum, og síðan alls heimsins. Við erum hér gæslumenn ákveðinna auðæfa í mjög víðum skilningi fyrir alla veröldina.

Þess vegna eigum við meðal annars að setja þessi vatnamál okkar ekki undir atvinnumálaráðuneyti sem eðlilega hugsar um hagsmuni atvinnuveganna, heldur undir umhverfisráðuneytið sem hugsar um landið og hag komandi kynslóða.