131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[17:09]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu að ráði en ég get ekki annað en komið hingað til að fagna þeirri stórkostlegu framför sem mér fannst felast í játningu hæstv. iðnaðarráðherra hér, þ.e. að hún væri sér vel meðvituð um að nýting og verndun færu ekki alltaf saman. Hins vegar gæti þetta bærst innan með sömu persónunni hvort tveggja, sagði hæstv. ráðherra. Mikil ósköp, það skiljum við vel. Það var einu sinni kveðið að „væru á ferli úlfur og refur í einum og sama manninum“. Sjálfsagt má finna um það dæmin að í einum og sama manninum takist á virkjunarsinninn og umhverfisverndarsinninn. Hvað snýst þetta þá um, frú forseti? Jú, þetta snýst um gildismat, um lífsviðhorf, um það hvar við setjum mörkin, hvað okkur finnst þolanlegt og hvað ekki.

Það er ástæða til að ræða þetta við hæstv. ráðherra. Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur ekki alltaf verið ýkja málefnaleg, t.d. þegar hún hefur vikið orðum að okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og sett dæmið þannig upp að með því að við skrifuðum ekki gagnrýnislaust upp á og kyngdum öllum virkjunaráformum ríkisstjórnarinnar værum við bara alfarið á móti því að virkja. Svona hefur málflutningurinn stundum verið. Hvaða falleinkunn við gefum slíku getum við látið liggja á milli hluta hér.

Þessi draugur skaut aðeins upp kollinum þegar hæstv. ráðherra svaraði hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur áðan og sagði: „Ef við stæðum ekkert í því að virkja hér á Íslandi værum við einfaldlega rafmagnslaus.“ Þetta sagði hæstv. ráðherra. (Iðnrh.: … spurning.) Já, það er bara svona. Ef ekki er framleitt neitt rafmagn er ekkert rafmagn. Þetta er líklega rétt, já, og verð ég að hrósa glöggskyggninni mjög.

Málið er auðvitað það að það að virkja fyrir almennar þarfir okkar Íslendinga er ekki og hefur aldrei verið neitt vandamál í umhverfislegu tilliti. Aldrei. Við erum svo gríðarlega vel sett í þeim efnum að það getum við leikandi létt gert og höfum allan tímann getað gert án þess að um það hafi eiginlega nokkurn tímann þurft að standa nein umtalsverð átök. Það eru sem betur fer, og hafa verið, í boði svo margir góðir virkjanakostir, bæði í fallvötnum og jarðhita, sem ekki kalla á neinar umhverfisfórnir. Vandamálin hafa skapast af því að menn hafa verið helteknir af stóriðjuástríðu frá því upp úr miðbiki síðustu aldar og menn hafa talið svo miklu til fórnandi eða kostandi að jafnvel sumar af helstu náttúrugersemum landsins hafa ekki verið látnar í friði. Menn hafa ætlað að virkja, og virkja stórt og í miklu magni í einu til að selja í erlendar stóriðjur. Þar rísa deilurnar. Þá ráðast menn í hluti sem hafa stórkostleg og alvarleg umhverfisáhrif í för með sér.

Við getum bara tekið dæmin núna síðustu árin. Ef þetta snerist eingöngu um að uppfylla þarfir almennra notenda á Íslandi, bæði til einkanota og almenns iðnaðar, mundu menn leika sér að því að bæta við því afli, jafnóðum nokkurn veginn, með því að skjóta inn viðbótartúrbínum til raforkuframleiðslu samhliða nýtingu jarðhitans. Hitaveita Suðurnesja, Orkuveita Reykjavíkur, Orkuveita Húsavíkur og aðrir slíkir aðilar mundu leika sér að því að sjá fyrir þörfum almenns notendamarkaðar á Íslandi með því að skjóta inn kannski á nokkurra ára fresti viðbótartúrbínum. Þá félli sú raforkuframleiðsla til sem aukaafurð af nýtingu jarðvarmans sem gerir um leið þá framleiðslu ákaflega hagkvæma. Hún er þá líka umhverfisvæn því að búið er að beisla svæðin hvort sem er. Það væri hægt að auka framleiðsluna í Kröflu og það er hægt að fara í ýmsar góðar beinar rennslisvirkjanir í lindám sem hafa tiltölulega jafnt ársrennsli. Virkjana- og orkubúskaparstefna af þessu tagi væru auðvitað í góðri sátt við náttúruna og almenn viðhorf í þeim efnum.

Það er sú stefna sem við höfum verið að tala fyrir. Ég treysti því að þjóðin viti það og jafnvel fer hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra að átta sig á því líka að það er ekki þannig að einhver hluti stjórnmálamanna í landinu sé alfarið á móti rafmagni og vilji bara slökkva ljósin, eins og stundum mætti halda af málflutningi hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Nei, maður á ekki að þurfa að vera að standa í orðræðu um slíka fásinnu. Það er gott að hæstv. ráðherra viðurkennir að þetta fer ekki alltaf saman. Hæstv. umhverfisráðherra þarf líka að muna eftir þessu þegar hún er að afgreiða málin með þessum einfalda hætti, að hún tilheyri þeirri tegund stjórnmálamanna sem vilja bæði vernda og nýta.

Hæstv. ráðherra svaraði því miður ekki spurningu minni eða kom ekki inn á það sem ég vakti athygli á og varðar misræmið í 15. gr. og hvaða brautir er verið að fara þar inn á varðandi bætur til eiganda þeirrar fasteignar, hvar vatn er tekið vegna annarra þarfa eða þarfa annarra aðila og svo aftur orðalagsins í umsögn um greinina. Þar sem það vill svo vel til að ég á kost á því að fylgja þessum málum eftir í iðnaðarnefnd get ég vel látið mér það duga ef aðrir áheyrendur hafa ekki áhuga á því eða krefjast þess ekki að fá þessu svarað. Þarna er náttúrlega á ferðinni mjög stórt atriði satt best að segja og eitt af því sem hefur orðið mjög til umræðu undir lokin.

Ég endurtek, virðulegur forseti, að fyrir mér er langstærsta einstaka atriðið sem hér hefur komið upp spurningin um almannaréttinn, um rétt almennings til vatns og að það verði betur frá því gengið en er í frumvarpsdrögunum. Hæstv. ráðherra kemur og uppfræðir okkur þingmenn um að eign manna sé varin í stjórnarskránni og verði ekki af þeim tekin án bóta. Mikið er þetta rétt og könnumst við við það.

Spurningin er: Hvernig er eignin skilgreind? Þá erum við komin að því. Hvar drögum við mörkin á milli einkaeignarinnar og almannahagsmuna og almannaréttinda sem upphefja hann í einhverjum mæli? Auðvitað er það pólitík hvernig menn ganga frá þeim hlutum.

Ég held að menn hafi leiðst sífellt lengra í þeirri viðleitni sinni að færa inn undir einkaeignarréttinn sem í grunninn var fyrst og fremst hinar persónulegu eignir manna þeim sjálfum til viðurværis, húsaskjóls og náttúrlega land eftir því sem þeir nýttu það og þurftu á því að halda. Því miður hefur sú stefna ráðið mikið ríkjum að ganga á almannaréttinn og styrkja einkaeignarréttinn. Það var t.d. að mínu mati alveg fáheyrður atburður þegar ákveðið var að færa undir einkaeignarrétt eign á háhita, þess vegna alveg inn að miðju jarðar. Það gerðist á Alþingi Íslendinga að menn settu lög um þau mál og þau verða ekki skilin öðruvísi en þannig að einkaeign á landi fylgi fleygur inn að miðbiki jarðar. Það eru engin takmörk fyrir því hversu langt niður í jörðina menn eiga í staðinn fyrir að ganga t.d. þannig frá þessu að einkaeign á landi fylgdi lághiti í yfirborð og kannski nýting hans, sem hefðu verið ákveðin rök fyrir. En það er fráleitt að orka sem kannski þarf að bora eftir mörg þúsund metra niður í jörðina tilheyri einkaeign á yfirborði jarðarinnar í þessum skilningi, fleygur inn að miðju jarðar sem er, ef ég man rétt, eitthvað um 6.300 km, ég er nú farinn að ryðga aðeins í því að vísu.

Þar var farið offari og mér finnst að við þurfum að vanda okkur og passa okkur á því að lenda ekki í svipaðri gryfju hér að veikja enn almannaréttinn, t.d. gagnvart þessu með vatn, neysluvatn, vatn til drykkjar og heimilisnota og þess vegna almenns búskapar.

Ég er sammála hv. þingmanni sem kom inn á þá hluti að skoða þarf mjög vandlega takmörkunina á því hvað felst í skilgreiningu á orðinu „búsþarfir“ sem virðist eiga að taka allt undan nema drykkjarvatn fyrir búpening, ef maður reynir að lesa út úr þessu. Það er auðvitað stórskrýtið. Þá er t.d. bóndi sem stundar garðyrkju verr settur að þessu leyti en bóndi sem er með hænur eða hvað það nú er. Ég sé engin rök fyrir því, ekki nokkur.

Það er því að mörgu að hyggja í þessu máli, frú forseti, og menn eiga að gefa sér góðan tíma til að skoða það vandlega.