131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[17:22]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er kannski óþarfi að vera að koma upp, ég veit ekki um ferðir hæstv. umhverfisráðherra en vil bara leggja áherslu á að auðvitað verður reynt að svara öllum þeim spurningum sem fram hafa komið og ekki hafa komið tilheyrandi svör við í nefndinni.

Mig langar líka að halda því til haga, ef ég má aðeins lesa um 1. umr. samkvæmt þingsköpum, með leyfi forseta:

„Við fyrstu umræðu skal ræða frumvarpið í heild sinni. Þá er þeirri umræðu er lokið er leitað atkvæða um hvort það eigi að ganga til annarrar umræðu og nefndar.

Önnur umræða fer eigi fram fyrr en einni nóttu eftir fyrstu umræðu eða útbýtingu nefndarálits og skal þá ræða greinar frumvarpsins og breytingartillögur við þær …“

Við erum því kannski að ganga of langt miðað við þingsköpin að ræða einstakar greinar við 1. umr. Það er greinilega hugsunin með þingskapalögunum að það skuli fyrst og fremst ræða einstakar greinar í nefnd og síðan við 2. umr.