131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[17:26]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég geri kannski ekki beinar athugasemdir við fundarstjórn forseta, en vil koma því að í umræðunni að ég harma það að hæstv. umhverfisráðherra skuli ekki hafa treyst sér til að svara þeim tveimur spurningum sem vísað var til hennar. Ég mun auðvitað kalla eftir svörum í iðnaðarnefnd þar sem ég á sæti. Við höfum rætt frumvarpið í heild sinni, sem þýðir greinarnar allar því þær eru auðvitað undir þegar við ræðum frumvarpið í heild sinni, og ekki virtist mér vanþörf á því að ræða frumvarpið í heild og ýmsar greinar.

Fyrst við erum að ræða um efnismeðferð málsins legg ég til að það fari einnig til umhverfisnefndar til umsagnar, ekki aðeins til iðnaðarnefndar, þannig að umhverfisnefnd geti skoðað það og rætt það hjá sér og að það komi umsögn frá umhverfisnefnd til iðnaðarnefndar um málið.

Ég mun því ekki halda þessu til streitu eða óska eftir því að umræðunni verði frestað en vonast til þess að fá svör í nefndinni við þeim spurningum sem ég lagði fram.