131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

25. mál
[17:43]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að segja að ég lýsi yfir stuðningi við þetta mál í megindráttum og er á þeirri skoðun eins og 1. flutningsmaður að hér sé um að ræða framfaramál sem sé eitt af þeim stórverkefnum sem samfélagið eigi að ráðast í á næstu missirum. Ég held að það sé mikið sanngirnismál og þjóðhagslega hagkvæmt að forgangsröðun væri þannig háttað hjá okkur að við mundum ráðast í stórverkefni eins og þetta í stað þess t.d. að ráðast í tekjuskattslækkanir fyrir þá sem langhæst hafa launin í landinu og hafa enga sérstaka þörf á þeim skattbreytingum. Ég held að það væri miklu sanngjarnara og meira áríðandi fyrir okkur að setja peningana í að rétta hag sveitarfélaganna með þeim hætti og fara í samninga við þau þannig að í áföngum væri tekinn upp gjaldfrjáls leikskóli eins og þetta frumvarp kveður á um.

Málið snertir þann hóp sem hefur langminnst umleikis í samfélaginu. Fólk sem er að mennta sig, koma sér upp húsnæði, koma upp börnunum sínum og allt á sama tíma. Þetta er kjarabót og sanngirnismál sem í mínum huga er jafnstórbrotið í sjálfu sér og fæðingarorlofsmálið á sínum tíma. Ég held að þetta væri álíka réttlætismál fyrir fjölskyldurnar, unga fólkið og barnafólkið í landinu. Það mætti líkja því við það mikla réttlætismál sem fæðingarorlofið var og þær miklu framfarir sem það hafði í för með sér.

Fólk með tvo til þrjú börn á leikskólaaldri er í þeirri stöðu að í mjög mörgum tilfellum borgar sig ekki peningalega að báðir foreldrar séu á vinnumarkaði. Annað finnur sig því knúið til að vera heima hjá börnunum í stað þess að setja þau á leikskóla. Í því getur að mínu mati falist tvenns konar ranglæti. Annars vegar eiga öll börn rétt á leikskólagöngu, óháð efnahag foreldranna. Hins vegar eiga foreldrarnir, hvort sem um er að ræða karlinn eða konuna — konan lendir oftar í því að vera heimavinnandi en karlinn — rétt á að geta haldið starfsferli sínum áfram og þurfa ekki að standa frammi fyrir því að þurfa að segja upp starfi sínu eða gera hlé á starfsferli sínum þegar hann er á hvað viðkvæmustu stigi. Þetta er gjarnan fólk sem er að hefja störf í samfélaginu, nýbúið að fá vinnu sem það hefur áhuga á að sinna og hefur áhuga á að ná árangri, sem það vill helga fyrstu ár starfsferils síns. Það getur neyðst til að fara af vinnumarkaði af því að það hefur ekki efni á því að vista börn sín á leikskóla.

Í þessu felst að mínu mati ranglæti sem er ekki hægt að sætta sig við. Það á að verða eitt af stóru markmiðunum á næstu árum að ráðast í það í áföngum að leikskólinn verði gjaldfrjáls. Það er enginn vafi á því að ef stjórnvöld bera gæfu til að rétta hlut sveitarfélaganna og snúa frá því ranglæti sem ríkir í tekjuskiptingunni þar og hefur að mörgu leyti komið í uppnám því sjálfsagða ferli sem ætti að eiga sér stað og líta dagsins ljós í vor þegar mörg sveitarfélög sameinast, þegar sveitarfélögunum fækkar og þau stækka. En miðað við framgangsmáta stjórnvalda virðast þær tillögur sem fram komu hjá hæstv. félagsmálaráðherra á sínum tíma vera í uppnámi. Fátt bendir til að sú mikla sameining verði sem að var stefnt. Ég held að það sé mjög áríðandi að sveitarfélögunum fækki verulega og þau sameinist. Þau verði öflugri og til þess bær að takast á við stór verkefni, hvort sem er á sviði heilbrigðis- eða félagsmálaþjónustu eða menntamála.

Hér er um að ræða mál sem kemur bæði inn á félagsmál og menntamál. Öll börn ættu að hafa aðgang að leikskóla óháð efnahag foreldranna. Ég tel að í mörgum tilfellum sé það stór þáttur í menntun barnanna að þau fari á ákveðnum aldri í leikskóla. Ég held að þau hafi gott af því og það sé orðinn það ríkur þáttur í heildarmenntuninni, frá leikskóla og upp í háskóla, að öll börn séu á leikskóla einhvern tíma ævi sinnar, einhverjar klukkustundir á dag, eins og ágætlega er rakið í tillögunni, að hér sé um að ræða bæði félagslegt og menntunarlegt framfaramál sem verði ekki litið fram hjá.

Ég held að enginn efist um þjóðhagslegt hagræði af því að foreldrar geti vistað börn sín á gjaldfrjálsum leikskóla. Ég er viss um að það sé hægt að reikna samfélaginu mikinn hag af því að þeir geti verið á vinnumarkaði sem kjósa að vera á vinnumarkaði og samfélagið og einstaklingar þurfi ekki að bíða skaða af því að fjöldi fólks þurfi að hætta að vinna af því að það hafi ekki efni á að veita börnum sínum þau réttindi að ganga í leikskóla.

Ég vona að þetta mál, hvort sem það verður með þingmálinu sem við ræðum um hér eða í öðru formi, nái fram að ganga á næstu árum. Ég er viss um að þegar þessi ríkisstjórn fer loksins frá og jafnaðarmenn og vinstri menn komast til valda þá verði eitt af stóru verkefnunum að gera leikskólann gjaldfrjálsan í áföngum, um leið og menn rétta hag sveitarfélaganna og koma á einhverri sanngirni í samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Hér er um að ræða upphæðir sem skipta hundruðum þúsunda á ári og er jafnvel á aðra milljón í tekjum á ári sem fólk þarf að afla aukalega til að standa straum af kostnaðinum. Það eru mjög háar fjárhæðir í þessu samhengi. Þegar við lítum á skólastigið allt, leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla, þá hlýtur að stinga í stúf að öll skólastigin og háskólinn, ríkisháskólarnir á grunnstigi, séu svo til gjaldfrjálsir á meðan fólk borgar hundruð þúsunda á ári fyrir vistun barna sinna á leikskólum. Það er að mínu mati ranglátt og röng forgangsröðun. Það er engin leið að réttlæta það að öll hin skólastigin séu gjaldfrjáls þegar fólk þarf að borga tugi þúsunda eða hundruð þúsunda á ári fyrir leikskólagöngu barna sinna. Eins og samfélagið hefur þróast eru engin rök fyrir þessu lengur.

Samfélagsgerðin á að mínu mati að sjá til þess að öll börn, óháð efnahag, geti sótt leikskóla. Hitt er annað mál, hvernig reiðir af með skólaskylduna og hvar menn vilja draga mörkin þar, hvort það eigi að breyta henni eða færa neðar. Það er í sjálfu sér önnur umræða og ekki víst að það sé svo áríðandi. En í þessu felst, eins og ég segi, veruleg kjarabót fyrir barnafólk í landinu, réttlætismál sem kemur bæði við réttindi barna og réttindi foreldra, að þurfa ekki að hætta að vinna og gera hlé á starfsferli sínum.

Ég styð því þetta mál. Það verður gaman að fylgjast með umræðunni um það í samfélaginu. Þetta hefur áður komið upp í sveitarstjórnarkosningum og alþingiskosningum, hjá bæði vinstri mönnum og jafnaðarmönnum. Það er vonandi að málið nái fram að ganga á næstu missirum og verði eitt af þeim verkefnum sem við ráðumst í frekar en að fara í ranglátar skattalækkanir fyrir efnafólk í landinu sem eiga engan rétt á sér.