131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

25. mál
[17:51]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við í Frjálslynda flokknum tökum mjög jákvætt í þessa tillögu. Við gerum það m.a. á grundvelli þess sem fram kom í skýrslu ASÍ, „Velferð fyrir alla“, í síðustu kosningabaráttu. Þar var bent á að hluti barnafjölskyldna byggi við kröpp kjör og einmitt þessi aðgerð getur orðið til að rétta hluta barnafjölskyldna. Ég tel því að það eigi að skoða tillöguna með mjög opnum huga.

Ég býst jafnframt við að því að meiri hluti sé fyrir tillögunni á Alþingi. Ég merki það m.a. á því að hæstv. forsætisráðherra flutti mjög efnismikla áramótaræðu þar sem mikið fór fyrir áhuga hans á fjölskyldumálum. Ég er í raun hissa á að sjá hann ekki í salnum, vegna áhuga hans á fjölskyldumálum, að hann sé ekki hér til að taka þátt í umræðunni. Menn hafa lýst yfir furðu yfir því að hinir og þessir væru ekki viðstaddir umræðuna en ég er furðu lostinn yfir því að sjá ekki hæstv. forsætisráðherra við þessa umræðu.

Fari maður yfir stefnuskrá Framsóknarflokksins þá er einmitt tekið undir þetta sjónarmið og í ályktun flokksþings Framsóknar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Í samvinnu við sveitarfélögin verði komið á skólaskyldu á síðasta ári leikskólans og jafnframt stefnt að afnámi leikskólagjalda um leið og skólaskyldu verði komið á. “

Ég tel að þessi ágæta tillaga eigi mikinn hljómgrunn hér á hinu háa Alþingi. Það er einnig rétt að fara rækilega yfir þetta mál vegna þess að fréttir hafa borist af því að ójöfnuður hafi aukist í samfélaginu. Það kom m.a. fram í fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra. Hann staðfesti að ójöfnuður hefði aukist. Þess vegna er rétt að skoða hvernig sá ójöfnuður hefur bitnað á barnafjölskyldum landsins. Ýmislegt bendir til þess, eins og fram kom í skýrslu ASÍ, að barnafjölskyldur búi við kröpp kjör.

Ég tel að framsóknarmenn ættu að grípa þessa tillögu á lofti og veita henni brautargengi. Samt sem áður er maður ekki allt of bjartsýnn. Hér hafa komið fram ýmsar aðrar tillögur og stefnumál sem Framsóknarflokkurinn hefur gert lítið með. Nokkrum línum ofar í áðurnefndri ályktun kemur fram að almenn skólagjöld verði ekki tekin upp í grunnskólum, framhaldsskólum eða ríkisreknum háskólum. En framsóknarmenn gerðu ekkert með það skömmu fyrir jól.

Ég vona samt að þeir bæti ráð sitt, sérstaklega í ljósi ræðu hæstv. ráðherra frá því um áramótin og að hann komi í salinn, taki til máls og fagni þessu frumvarpi.

En það er einnig athyglisvert, varðandi ójöfnuðinn, að hæstv. fjármálaráðherra hefur staðfest að ríkisútgjöld hafi vaxið gífurlega í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Það er svolítið sérstætt að bæði hefur ójöfnuður vaxið og hlutur ríkisins vaxið. Það er náttúrlega með ólíkindum.

Ég ítreka að ég á ekki von á öðru en að þessi tillaga verði samþykkt. Það verður fróðlegt að heyra á eftir ræðu hv. þm. Jónínu Bjartmarz, hvort hún muni ekki einmitt flytja okkur boð um að Framsóknarflokkurinn muni styðja þetta mál.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill geta þess að hæstv. forsætisráðherra er með fjarvistarleyfi í dag.)