131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

25. mál
[18:04]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Sú umræða sem á sér stað um gjaldfrjálsan leikskóla kemur mér dálítið einkennilega fyrir sjónir, einkum sá málflutningur sem viðhafður er af hálfu þingmanna stjórnarandstöðunnar, sérstaklega hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem lýsti yfir efnislegum stuðningi við það sem fram kemur í tillögunni, þ.e. um að gjöld fyrir leikskólapláss verði lögð af eða lækkuð verulega. Ég man ekki til þess að sá efnislegi stuðningur hafi birst þann 11. nóvember sl. þegar borgarráð Reykjavíkur tók ákvörðun um að hækka mjög verulega gjaldskrár á fjölskyldurnar í Reykjavík vegna leikskólaplássa fyrir börn. Þær hækkanir Reykjavíkurlistans, sem Samfylkingin, Vinstri grænir og Framsóknarflokkurinn eiga aðild að bitna mjög harkalega á t.d. ungum námsmönnum og nema allt að 42% á tiltekna þjóðfélagshópa í landinu.

Ungir jafnaðarmenn gagnrýndu þær hækkanir þann 10. nóvember og það sama gerðu stúdentar við Háskóla Íslands þann 9. nóvember. Ég verð að segja að mér finnst dálítið holur hljómur í stuðningi hv. þingmanns við þessa þingsályktunartillögu og langar að spyrja hv. þingmann að því hvað hafi breyst á tveimur mánuðum varðandi afstöðu hennar til málsins.