131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

25. mál
[18:07]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Gjaldskrá í Reykjavík á leikskólum hefur verið með þeim hætti að þar hafa verið fjórir gjaldskrárflokkar og verða núna þrír. Það var almenn gjaldskrá, það var gjaldskrá þar sem báðir foreldrar voru í námi, það var gjaldskrá þar sem annað foreldra var í námi og það var gjaldskrá fyrir einstæða foreldra og öryrkja. Sá gjaldskrárflokkur sem verið var að fella niður í gjaldskrá Reykjavíkurborgar og á að gerast í áföngum nær til þeirra hópa þar sem annað foreldrið er í námi. Gjaldskrá Reykjavíkurborgar, sérstaklega hvað varðar öryrkja og einstæða foreldra, er mun lægri en almennt tíðkast og gjaldskrá Reykjavíkurborgar í nóvember sl. tók ekki þeim breytingum til hækkunar sem gjaldskrár gerðu á ýmsum öðrum stöðum.

Hins vegar vil ég segja og það kom fram í ræðu minni áðan að ég tel að sveitarfélögin geti ekki tekið einhliða á sig að lækka verulega gjaldskrárnar eða fara út í gjaldfrjálsan leikskóla. Þetta þarf að vera sameiginlegt átak ríkis og sveitarfélaga og það þarf að semja um það þeirra á milli með hvaða hætti það gerist þannig að börn búi við það hvar sem er á landinu, hvort sem þau búa í Reykjavík, Borgarbyggð, Akureyri, Seltjarnarnesi eða hvar sem er, að eitt verði látið yfir alla ganga. En þangað til verður þetta auðvitað með mismunandi hætti eftir sveitarfélögum og þá mun Reykjavíkurborg vera í fararbroddi hvað varðar lægstu gjaldskrá fyrir þá hópa sem verst eru settir. Vonandi munu menn svo halda áfram á þeirri braut að lækka gjaldskrárnar og bjóða hluta barna upp á gjaldfrjálsan leikskóla.