131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

25. mál
[18:13]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér í upphafi máls míns að spinna þennan þráð örlítið lengra því að sannarlega saknar maður afstöðu Sjálfstæðisflokksins við umræðuna. Ég treysti því að hv. þingmaður Sigurður Kári Kristjánsson eigi eftir að koma í almennilega ræðu og gera grein fyrir því á hvern hátt hann sér málin þróast í náinni framtíð. Það er sannarlega ástæða til að heyra frá hv. þingmanni hvernig tillaga af því tagi sem hér er rædd leggst í hann þannig að tími hans fari ekki bara í að agnúast út í skipulagsbreytingar á gjaldskrám Reykjavíkurborgar sem, eins og fram kom í máli hv. þingmanns Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, voru þess eðlis að búið er að breyta málunum á sama veg og í öllum nágrannasveitarfélögum okkar að ég best veit.

Hins vegar vil ég segja að málið sem er til umfjöllunar er verulegt framfaramál og eins og komið hefur fram í máli þeirra sem hér hafa talað er það ekki einungis framfaramál í menntunarlegu tilliti heldur líka félagslegu tilliti og rétt að ítreka það sem fram kemur í greinargerð með tillögunni að leikskólakennarar hafa ályktað um þessi mál. Þeir hafa lagt til að leikskólinn verði hluti af menntakerfi samfélagsþjónustunnar á nákvæmlega sama hátt og önnur skólastig og því skuli það vera í verkahring sveitarfélaganna að vinna markvisst að því og finna leiðir til þess að hægt sé að gefa börnum kost á sex tíma leikskólagöngu á dag án endurgjalds. Leikskólakennarar rökstyðja sjónarmið sín á þann hátt, sem er afar sannfærandi að mínu mati, að ákvæði um aðalnámskrá leikskóla sem er hið merkasta plagg þurfi að framfylgja á öllum námssviðum og tína til hluti eins og hreyfingu, málrækt, myndsköpun, tónlist, náttúru og umhverfi, menningu og samfélag.

Þannig kemur í ljós í ályktunum leikskólakennara að námið í leikskólanum sé í raun og veru mjög samofið öllum leik og daglegri umönnun barnanna og það er auðvitað grundvallaratriði í þessu máli að í leikskólanum eru börnin á þroskabraut. Þau eru að taka sín fyrstu spor í lífinu. Þau eru að læra að vera hluti af samfélagi og það er afar mikilvægt að öll börn í samfélaginu eigi þess kost að njóta þeirrar handleiðslu sem leikskólakennarar geta veitt í leikskólanum, að þau eigi þess kost að eiga samneyti við önnur börn og það þurfi ekki að vitnast að hér á Íslandi fyrirfinnist fólk, fjölskyldur sem hafi ekki ráð á því að setja börnin sín í leikskóla og leyfa þeim að njóta þeirrar góðu þjónustu sem leikskólakennarar veita.

Herra forseti. Það kom upp fyrir nokkrum dögum, ef ég man rétt í fyrirspurnatíma sl. miðvikudag, umræða um nákvæmlega þessi mál sem við hér ræðum. Þá beindi hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson til félagsmálaráðherra fyrirspurn sem laut að því hvort til greina kæmi að flytja tekjustofna og fjármagn til sveitarfélaganna þannig að hægt væri að tryggja gjaldfrjálsan leikskóla, sem sagt hvort hæstv. félagsmálaráðherra sæi möguleika á því að tillaga af því tagi sem við nú ræðum gæti verið framkvæmanleg og samræmdist stefnu hans, Framsóknarflokksins og þá mögulega ríkisstjórnarinnar.

Það var afar athyglisvert, hæstv. forseti, hvernig félagsmálaráðherra fór undan í flæmingi við að svara þessari fyrirspurn. Hann reyndi að koma því fyrst þannig fyrir að hér væri um menntamál að ræða, mál sem ekki heyrði undir hans málasvið, en þegar hann var búinn að gera þá játningu að hann hefði í raun og veru reynt að koma sér undan því að svara fyrirspurninni lét hann sig hafa það að koma í ræðustól og þá svaraði hann á þann veg að hann væri þeirrar skoðunar að leikskólinn þyrfti að skilgreina sig að því leytinu til hvort hluti af honum yrði settur undir skólaskyldu. Það var í raun og veru eina framlag hæstv. félagsmálaráðherra til umræðunnar. Hann sagði að það væri tæpast tímabært að svara spurningunni um flutning tekjustofna vegna breytinga af þessu tagi vegna þess að ekki væri búið að ákveða hvort síðasta árið í leikskólanum yrði hluti af skólaskyldu eða ekki.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að mér finnst það alls ekkert grundvallaratriði í þessu máli. Það kann vel að vera að við tökum þá ákvörðun einhvern tíma að síðasta árið í leikskólanum verði skólaskylt og þá liggur það auðvitað í hlutarins eðli að leikskólagjöld hljóta að verða afnumin af því skólastigi en ég sé ekki að nokkur þingmaður geti látið sér detta í hug að hluti af skólaskyldu barna geti verið gjaldskyldur. Ég verð að segja að það var ekki til neinnar fyrirmyndar hvernig hæstv. félagsmálaráðherra fór eins og köttur í kringum heitan graut og kom sér undan því að svara þessari spurningu, sérstaklega ekki þegar það er skoðað að hæstv. ráðherra kemur úr Framsóknarflokknum. Formaður Framsóknarflokksins hefur nýverið lýst yfir þörfinni á að meta stöðu íslensku fjölskyldunnar í samfélaginu og ég verð að segja að það skyldi þó ekki vera að sú vinna sem komin er í gang í þeim efnum endaði einmitt á því að leggja það til að sú leið sem hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eru að leggja til að verði farin verði ofan á. Það sýnir sig og segir sig sjálft að staða íslensku fjölskyldunnar með tilliti til aðstöðu barna, foreldra og samvista foreldra við börn sín hlýtur að skipta verulegu máli, skipta sköpum þegar þetta skólastig, leikskólastigið, er skoðað.

Við skulum líka vera þess minnug að leikskólastigið er nú þegar skilgreint sem fyrsta skólastigið. Ekki eru allir meðvitaðir um að veruleg framför hefur orðið á þessu skólastigi og eðlilegt að það skólastig sem fyrst kemur lúti sömu lögmálum og önnur skólastig ofar á skalanum, þ.e. að börnum standi þessi frábæri leikskóli sem boðið er upp á á Íslandi til boða án þess að foreldrar þurfi að greiða fyrir. Hitt er svo aftur athyglisverð umræða sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hóf, þ.e. samhengið á milli atvinnulífs og fjölskyldu. Auðvitað er eðlilegt að stjórnmálamenn reyni að svara þeirri spurningu hvernig samræma megi hugmyndir um styttingu vinnuvikunnar, og þar af leiðandi aukinn tíma foreldra til samvista með börnum sínum, öðrum málum sem samfélagið í raun og veru krefst og atvinnulífið krefst. Ég sé ekki annað en að við séum stödd á þeim tímamótum að atvinnulífið og fjölskyldurnar og þá stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar þurfi að fara að finna leiðir til þess að gera foreldrum kleift að eyða meiri tíma með börnum sínum og sömuleiðis að sjá til þess að skólastigin séu þeirrar náttúru að það sé ekki einungis á færi þeirra efnameiri að nýta sér þá þjónustu sem þar er í boði.