131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

25. mál
[18:29]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er athyglisvert sjónarmið sem fram kom hjá síðasta hv. þingmanni, Pétri H. Blöndal, um að fólk kunni ekki að meta það sem það fær ókeypis og maður hlýtur þá að spyrja hvort hv. þingmaður telji að það eigi við um ræður hv. þingmanns. Ég verð að lýsa mig algerlega ósammála þeirri fullyrðingu þingmannsins. Auðvitað metum við fjöldamarga hluti sem eru ókeypis. Ég met til að mynda yfirleitt mjög mikils ræður hv. þingmanns og finnst hann setja fram mörg ágæt sjónarmið þó að ég verði að segja um þetta sjónarmið að er ég hræddur um að hv. þingmaður sé algerlega úti í móa með það því að auðvitað kunnum við vel að meta margvíslega samfélagsþjónustu sem við fáum ókeypis.

Við kunnum vel að meta þá þjónustu sem við fáum á sjúkrahúsunum. Við kunnum vel að meta þá þjónustu sem eldri borgurum er veitt á hjúkrunarheimilum. Auðvitað kunnum við vel að meta þjónustuna í grunnskólunum. Ég hef reynslu af því sjálfur að hafa dóttur mína í skóla annars vegar þar sem ég greiddi fyrir hana skólagjöld í einkaskóla og nú í almennum grunnskóla í Reykjavík og ég held að ég meti alls ekki síður þjónustuna í hinum almenna grunnskóla þó að hún sé ókeypis. Ég held því að þó að mörg ágæt rök hafi verið færð fram í máli hv. þingmanns sé óhjákvæmilegt að líta fram hjá þeirri alhæfingu þingmannsins að fólk kunni ekki að meta það sem er ókeypis og að það sé í sjálfu sér einhver röksemd gegn því að veita leikskólavist endurgjaldslaust.

Ég held að sú áhersla sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon leggur í þeirri tillögu sem hér er til umfjöllunar sé ákaflega mikilvæg og er framhald þeirrar umræðu sem við tókum á miðvikudaginn var við hæstv. félagsmálaráðherra þegar þingmaður Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafur Ágústsson, spurði hæstv. ráðherra um sama efni. Og ég verð að taka undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að heldur fór félagsmálaráðherrann undan þeirri spurningu í flæmingi og reyndi að vísa því frá sér sem einhvers konar menntamáli. Það er kannski ekki óeðlilegt því að auðvitað er hæstv. menntamálaráðherra fullkunnugt um þá stöðu sem uppi er í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Auðvitað þekkir Árni Magnússon, hæstv. félagsmálaráðherra, stöðu sveitarfélaganna í landinu og þau eru á engan hátt í stakk búin til þess fjárhagslega að veita þessa þjónustu endurgjaldslaust. Raunar veit hann að málið er enn verr statt því að allar viðræður ríkis og sveitarfélaga um sameiningu sveitarfélaga og eflingu sveitarstjórnarstigsins, sem hæstv. félagsmálaráðherra gumaði mjög af og lagði af stað ansi bjartsýnn í upphafi kjörtímabilsins, eru nú strand vegna þess að það skortir svo gríðarlega upp á í það að rétta af tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og það er tómt mál að tala um að sveitarfélögin taki við nýjum skyldum eða nýjum verkefnum við þær aðstæður. Þess vegna reyndi hæstv. félagsmálaráðherra auðvitað að víkja sér undan því að ræða það málefni sem hér er nú aftur til umræðu nokkrum dögum síðar að tilhlutan hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og meðflutningsmanna hans. En allt um það.

Ég held að full ástæða sé til þess að færa flutningsmönnum þakkir fyrir að taka þetta málefni upp. Það hefur átt vaxandi fylgi að fagna, held ég, í öllum stjórnmálaflokkum nema e.t.v. Sjálfstæðisflokknum á síðustu árum. Trúlega hefur það fyrst verið Kópavogslistinn, framboð félagshyggjufólks í Kópavogi, sem í sveitarstjórnarkosningunum 1998 setti það á stefnuskrá sína að bjóða upp á endurgjaldslausa dvöl á leikskólum en Reykjavíkurlistinn, eins og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fór hér yfir áðan, hafði það síðan sem stefnumið sitt í kosningunum 2002 og hefur frá síðasta hausti tekið fyrsta skrefið í því með því að þrír tímar á dag hjá fimm ára börnum eru endurgjaldslausir.

Augljóst er að sveitarfélögin ráða ekki við að taka öllu stærri skref án þess að ríkið komi þar að og sannarlega vert fyrir ríkisvaldið að taka það upp í viðræðum við sveitarfélögin því hér er um mikilsverða kjarabót að ræða eins og margir ágætir þingmenn hafa farið yfir. Auðvitað er það miklu betri kjarabót fyrir barnafjölskyldur í landinu að taka af leikskólagjöldin en til að mynda hinar almennu lækkanir á tekjuskatti sem hér voru ákveðnar í vetur. Auðvitað munar það barnafjölskyldu ósköp litlu hvort hún greiðir 36% eða 37% í tekjuskatt. En hvort hún borgar 300 þús. kr. á ári með barni á leikskóla getur auðvitað skipt sköpum um heimilisbókhaldið, a.m.k. það árið, að nú ekki sé talað um ef börnin eru fleiri en eitt. En aðrir ágætir þingmenn hafa farið yfir kjaraþáttinn í þessu máli og þá mikilvægu kjarabót fyrir ungt fjölskyldufólk sem hér er á ferðinni og síðan hefur hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lýst ágætlega ýmsu sem varðar jafnréttisþáttinn, og raunar líka hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, og það að hér er auðvitað líka ákveðið innlegg hvað það varðar.

Menn hafa hins vegar ekki viljað ræða hér mjög um að gera stigið skólaskylt. Ég vil því fjalla eilítið um það því að ég tel að það skref að gera a.m.k. til að byrja með fimm ára aldurinn að skólaskyldu sé í raun og veru algerlega nauðsynlegur fylgifiskur þess að gera þessa þjónustu endurgjaldslausa. Ég held að það skipti mjög miklu máli að við hugum strax að því að taka skrefið til fulls að þessu leyti vegna þess að ég held að málið sé í raun og veru þannig vaxið að þeim börnum sem mest þurfa á þessum breytingum að halda gagnist hún jafnvel ekki nema leikskólastigið verði að skólaskyldu.

Leikskólinn hefur þróast mjög ört hjá okkur á síðustu árum og eins og fram kom hjá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur hefur nemendafjöldi í honum tvöfaldast á einum áratug. Í Reykjavík hefur pólitísk áhersla félagshyggjuaflanna í Reykjavíkurlistanum auðvitað komið glöggt fram í þessum efnum með því að á 10 árum hafa framlög til niðurgreiðslu í leikskólunum margfaldast og skipta nú milljörðum. Og þó að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson reyni að kveikja einhver villuljós með því að vísa til einhverra kerfisbreytinga í nóvember sl. sem lutu að því að afnema það fyrirkomulag að fólk fengi sjálfkrafa afslætti ef annað foreldra væri í námi þá er það auðvitað ekkert annað en villuljós því að Reykjavíkurlistinn hefur sannarlega varið gríðarlegum fjárhæðum og margfaldað framlög til leikskólans í valdatíð sinni og sýnt með því í verki pólitískan vilja sinn og það undir forustu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur lengst af.

Ástæðan fyrir því að ég vil gera skólaskylduna að umtalsefni er að leikskólinn … (Forseti hringir.) Nú sé ég að hæstv. forseti verður bara að taka beiðni mína um að koma á mælendaskrá öðru sinni undir sama málinu því að tími minn er á þrotum.