131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

25. mál
[18:49]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Það er erfitt, herra forseti, að ætla að svara hv. þingmanni, hann talar um einhverja ótilgreinda tillögu sem framsóknarmenn hafi ekki staðið við. Ég þekki svo sem ekki tillögur frá flokki hv. þingmanns, hvað þeir hafa lagt til þannig að ég geti rakið hvað þeir hafa staðið við og hvað ekki.

Hins vegar er ljóst að okkur hefur tekist það sem af er af þessu kjörtímabili að efna stóran hluta af þeim kosningaloforðum sem við settum fram, (Gripið fram í.) ekki síst kosningaloforð sem lúta að því að bæta hag fjölskyldnanna í landinu. Mig langar í því tilviki að nefna lækkun endurgreiðsluhlutfalls námslána, hækkun barnabóta og svo mætti lengi telja. Við höfum líka staðið við öll þau skattalækkunarloforð sem flokkurinn setti fram.