131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

25. mál
[18:50]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kem upp í tvennum tilgangi, annars vegar til að leiðrétta sjálfa mig en mér varð á áðan að segja að gjaldskrárnar hjá leikskólanum hefðu verið fjórar og yrðu þrjár, þær voru þrjár og verða tvær þegar fram líða stundir. Ein gjaldskrá verður væntanlega lögð af í áföngum. Hins vegar kem ég upp til þess að fagna þátttöku hv. þm. Péturs H. Blöndals í umræðunni. Þó að ég hafi ekki verið sammála henni tel ég að hún hafi verið mjög málefnaleg. Það er mjög þarft að sú rödd heyrist sem hér kom fram, þ.e. sú rödd sem telur að greiða eigi gjald fyrir menntun ungra barna hvort sem er í grunnskólum eða leikskólum vegna þess að annars kunni fólk ekki að meta þá þjónustu sem það fær. Þetta er sjónarmið sem uppi er í samfélaginu, við vitum það, og það er ágætt að það heyrist á þingi. Það sjónarmið að kannski kæmu heimagreiðslur frekar að gagni en leikskólaþjónusta er líka sjónarmið sem hefur alltaf verið til staðar og sjálfsagt að það komi hér fram.

Ég get alveg tekið undir með þingmanninum að ég hef auðvitað áhyggjur af því þegar níu mánaða fæðingarorlofi lýkur hvað gerist þá. Hvað svo? spurði þingmaðurinn. Það er vissulega áhyggjuefni vegna þess að staðreyndin er jú sú að flest sveitarfélög veita leikskólaþjónustu frá 18 mánaða aldri fyrir börn almennt. Þau reyna hins vegar að veita börnum einstæðra foreldra og námsmanna þar sem báðir eru í námi þjónustu allt frá því að þau eru ársgömul og jafnvel yngri, en almennt veita þau þessa þjónustu frá 18 mánaða aldri.

Þá hlýtur maður að spyrja sig einmitt þegar níu mánaða fæðingarorlofinu lýkur: Hvað svo? Þingmaðurinn var með þá skoðun að sveitarfélögin ættu að brúa þetta bil með einhverjum heimgreiðslum og talaði um100 þús. kr., að nær væri að þau greiddu 100 þús. kr. kannski með hverju barni en að vera að byggja upp leikskólaþjónustu. Staðreyndin er sú að staðið hefur í sveitarfélögunum að veita þjónustu fyrir börn á þessum aldri vegna þess að það er gríðarlega dýrt. Þetta bil frá 9 mánaða aldri upp í 18 mánaða aldurinn er alveg gríðarlega dýrt að veita leikskólaþjónustu. Það hefur auðvitað staðið í sveitarfélögunum að stíga þetta skref, enda má líka spyrja ef sú skoðun er uppi að greiða eigi foreldrum fyrir að annast börn sín á þessum tíma hvort það væri þá ekki hlutverk ríkisins að gera það í formi barnabóta fyrir yngstu börnin. Það á ekkert að velta því yfir á sveitarfélögin ef það er skoðun manna hér og hv. þm. Péturs H. Blöndals að þarna þurfi að koma til móts við foreldrana, þá gerir ríkisvaldið það auðvitað bara í formi barnabóta. Þá geta foreldrarnir út af fyrir sig ákveðið hvort þeir nýta þær barnabætur í að kaupa sér einhverja þjónustu eða hvort þeir geri eitthvað annað. En að mínu viti á ekki að líta á það sem einhliða verkefni sveitarfélaganna að leysa þetta mál.

Ég tel þess vegna að sú þingsályktunartillaga sem fram er komin sé mjög góð hvað það varðar að hún gerir ráð fyrir því að þær samræður fari fram milli ríkis og sveitarfélaga hvernig við ætlum að mæta þörfum yngstu aldurshópanna fyrir þjónustu og hvernig menn ætla að skipta með sér þeim kostnaði sem er því samfara, sem er verulegur. Ég er líka sannfærð um að það mun skila sér margfalt til baka í samfélagsþegnum sem eru betur hæfir til þess að takast á við þau verkefni í lífinu sem bíða þeirra þegar þeir eldast.

Hitt er svo auðvitað áhyggjuefni eins og fram kom í máli hv. þm. Jónínu Bjartmarz að börn séu níu tíma á leikskólum. En af hverju eru ung börn svona lengi á leikskólum? Vegna þess að flestir foreldrar ungra barna þurfa að vinna langan vinnudag til þess að láta enda ná saman í þessu samfélagi okkar. Ég sagði áðan og það er tölfræði sem við höfum tiltæka, að foreldrar ungra barna vinna að jafnaði einni til tveimur klukkustundum lengur en aðrir hópar. Þetta er áhyggjuefni og eitthvað sem menn þurfa sameiginlega að reyna að takast á við, hvort sem það er með því að hækka barnabætur, koma á gjaldfrjálsum leikskóla í áföngum eða eftir öðrum þeim leiðum sem tiltækar eru.