131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

25. mál
[19:02]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki miklu við þetta andsvar hv. þm. Jónínu Bjartmarz að bæta. Hún vísaði réttilega til þess að leikskólinn á Íslandi er alveg sérstakt fyrirbæri, alveg sérstök stofnun. Alveg ótrúlega gott starf er þar unnið. Ég held að það sé ekki tilviljun. Ég held að sá mikli vilji sem hér hefur verið í samfélaginu fyrir þessari öflugu uppbyggingu eigi sér djúpar rætur í íslenskri þjóðarsál, þær rætur að við Íslendingar erum jafnaðarmenn. Við viljum tryggja öllum í þessu litla samfélagi sem jöfnust tækifæri og í því leggjum við mesta áherslu á að skapa börnunum sem jöfnust tækifæri. Leikskólinn er auðvitað fyrsta stigið í því að gefa fólki þann grunn inn í framtíðina að það geti keppt á jafnréttisgrundvelli eftir tækifærunum og tekið þátt í því samkeppnissamfélagi fullorðinsáranna sem síðan tekur við. Þess vegna erum við tilbúin og kannski viljugri en margar aðrar þjóðir að leggja nokkuð af mörkum til þess að unga fólkið okkar, uppvaxandi kynslóðir, fái þann stuðning og aðhlynningu sem nauðsynlegt er.