131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[13:37]

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er að koma til atkvæðagreiðslu við 2. umr. frumvarp um þriðju kynslóð farsíma. Það fjarskiptakerfi sem við nú búum við hér á landi er fjarri því að ná til allra landsmanna. Ég vil taka GSM-farsímaþjónustuna sem nær alls ekki til nema hluta landsmanna og hluta landsvæða. Ég vil nefna gagnaflutninga sem alls ekki ná með viðunandi hætti til landsmanna allra. Það er meginmarkmið að fjarskipti og símaþjónusta nái til allra landsmanna áður en við förum að leggja mikla fjármuni í að byggja upp nýja tegund fjarskiptakerfis sem þessi þriðja kynslóð farsíma er.

Hún hefur ekki gengið vel í öðrum löndum, hún hefur reynst gríðarlega kostnaðarsöm og helsta leiðin til að láta hana ná fram að ganga er að láta aðra notendur, notendur annarra fjarskiptakerfa, annarra símkerfa, greiða fyrir þessa nýju kynslóð farsíma.

Við hv. þingmenn í stjórnarandstöðunni teljum í fyrsta lag alls ekki tímabært að vera að setja heimild í gang til þess að ráðast í þessa gríðarlegu fjárfestingu sem þriðja kynslóð farsíma er. Í öðru lagi eigi að setja alveg skýrt skilyrði um það að verði hún sett í gang, að verði hún gerð heimil, verði gerð sú krafa á þau fyrirtæki sem ráðast í að byggja upp þriðju kynslóð farsíma að þeim verði gert skylt að byggja kerfið upp að lágmarki fyrir mun stærri hluta þjóðarinnar en þarna er gert ráð fyrir. Hér eru nefnd 60%. Við segjum í okkar tillögu að lágmarki 75% og auðvitað eigum við að miða við 90–100% þjóðarinnar ef við erum að setja í gang fjarskiptakerfi eins og hér er verið að tala um.

Svo er í síðasta lagi það að fari þetta í gang og nái einungis til stærstu þéttbýlisstaðanna eins og búast má við er það algerlega lágmark að þeir sem taka þessa nýju kynslóð farsíma í notkun greiði fyrir það en kostnaðinum verði ekki velt yfir á símnotendur í Reykjavík, á Vestfjörðum, Austurlandi, Norðurlandi eða Suðurlandi sem alls ekki eiga aðgang eða möguleika á að taka þessa nýju kynslóð farsíma í notkun.

Þess vegna teljum við, herra forseti, að við eigum að flýta okkur hægt, fresta gildistöku þessara laga og skoða málin betur.