131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[14:18]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég var ekki að fjalla efnislega um þennan þátt. Það má vafalaust finna það form á fjárhagslegum aðskilnaði á útgerð og fiskvinnslu sem gengur upp þannig að fullt hagræði náist innan fyrirtækja í slíkri starfsemi. Það var ekki meginatriði míns máls. Mér finnst að skoða megi það frá ýmsum hliðum. Mér finnst sjálfsagt að þau atriði séu skoðuð og hvað mönnum finnst í þeim efnum.

Ég ítreka að ég tel að eitt brýnasta málið okkar nú sé að þeim fiski sem veiddur er við Ísland sé þá landað hér og komi til vinnslu hér á landi.