131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[14:21]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Það er full ástæða til að ræða um efni þessarar þingsályktunartillögu sem fjallar um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri útgerðar og fiskvinnslu. Ég þakka flutningsmönnum hennar hv. þingmönnum Guðjóni Arnari Kristjánssyni og Jóhanni Ársælssyni fyrir þá þolinmæði og staðfestu sem þeir sýna í þessu máli. Ég tók eftir því að í greinargerð sem fylgdi með frumvarpinu kom fram að þetta mál hefði áður verið lagt fram og ekki náðst að ræða það að fullu og því væri það lagt fram aftur. Ég fletti því upp hvernig þetta mál hefur gengið fyrir sig.

Málið var fyrst lagt fram 16. október árið 2001 og þá fóru fram um það ansi skýrar og glöggar umræður. Þá var gert ráð fyrir því í tillögunni að ný lög tækju gildi 1. janúar 2003. Síðan hefur málið verið sent til nefndar og ekki komið úr nefnd. Síðan er sama mál lagt fram 29. október 2002. Þá átti það að taka gildi 1. janúar 2004. Þar er sami háttur á. Þá fer fram 1. umr. Hún er góð en síðan gerist ekkert meira í málinu. Þá er málið lagt fram 13. október 2003.

Mér sýnist sem þetta mál hafi komið fram í október á hverju ári, nánast eins tryggt eins og jólin koma í desember, en aldrei hefur það komist lengra en að vera vísað til nefndar þar sem það hefur sofnað. Þetta, herra forseti, er nokkuð sem ég er farinn að átta mig á með örlög þingmannamála stjórnarandstöðunnar á Alþingi. Þau fá eina umræðu ef þau komast á dagskrá og síðan sjást þau yfirleitt ekki meira. Ég mundi vilja nota þetta tækifæri og skora á þingmenn stjórnarinnar og þá sem ríkisstjórnina styðja að sýna þann kjark að taka umræðu í nefnd um mál eins og þetta, afgreiða það aftur hér til þingsins svo það fái þá þinglega meðferð. Ef menn álíta að ekki sé hægt að samþykkja svona þingsályktunartillögu eins og hér er lögð fram þá felli menn hana einfaldlega, en láti málið ekki sofna í nefnd aftur og aftur.

Það dylst náttúrlega engum sem skoðar málið að það er gríðarlegur aðstöðumunur á milli þeirra aðila sem fengu úthlutað veiðiheimildum á sínum tíma og reka fiskvinnslu og þeirra sem reka eingöngu fiskvinnslu og kaupa allt sitt hráefni af öðrum. Þessi tillaga sem hér er lögð fram tekur eingöngu á fjárhagslegum aðskilnaði, bókhaldslegum og fjárhagslegum aðskilnaði og kemur ekkert inn á þau rekstrarlegu eða tilfinningalegu málefni að aðrir eigi ekki að fá „fiskinn minn“. Ekkert yrði því til fyrirstöðu að menn haldi óbreyttu kerfi miðað við þá tillögu sem hér er, að þeir sem bæði eiga útgerð og fiskvinnslu nýti áfram fisk af sínum bátum en það sé hins vegar skýrt í bókum hvers fyrirtækis hvernig rekstur útgerðarþáttarins lítur út og hvernig rekstur fiskvinnslunnar lítur út.

Þetta er eðlileg og sjálfsögð krafa þeirra sem eingöngu stunda fiskvinnslu. Ég efast um að í nokkurri annarri atvinnugrein á Íslandi fengju menn að reka fyrirtækin með þeim hætti sem gert er í sjávarútvegi, að hráefnisbirgir og framleiðandi séu sami aðilinn án þess að skilið sé þar á milli með bókhaldslegum aðskilnaði og jafnvel heildsali líka, það sé allt sama fyrirtækið frá upphafi til enda og engin leið að bera saman rekstrar- eða samkeppnisgrundvöll þeirra sem eingöngu stunda einn þátt þeirrar atvinnugreinar sem fram fer. Ég er viss um að Samkeppnisstofnun væri búin að taka á þessu máli í öðrum atvinnugreinum en hún gerir það ekki í fiskvinnslunni.

Við verðum að hafa í huga að fiskveiðar í kringum Ísland eru leyfisbundnar. Það er árleg úthlutun á veiðikvóta og því hægt að segja, eins og háttvirtur flutningsmaður sagði í upphafi máls síns að þessi atvinnugrein, þ.e. útgerðin, sé stunduð í skjóli opinbers einkaleyfis. Við vitum að þeir einir sem hafa þetta opinbera einkaleyfi mega nýta auðlindina í hafinu í kringum Ísland þótt hún sé þjóðareign og það komi skýrt fram í öðrum lögum.

Hér er um takmörkuð réttindi að ræða og þeim takmörkuðu auðlindum eða gæðum er úthlutað til fárra. Við verðum að gera þá kröfu að þeir sem nýta hina sameiginlegu auðlind geri það þannig að það sé opið og gegnsætt. Menn þyrftu þá ekki að geta sér til um hver afraksturinn er af útgerðinni annars vegar og afraksturinn af fiskvinnslunni hins vegar.

Ég reyndar þekki það vel til vinnslu og rekstrar útgerðarfyrirtækja að ég efast ekkert um að bókhald þessara fyrirtækja er með þeim hætti að það kemur skýrt fram hvernig rekstur útgerðarinnar er annars vegar og rekstur fiskvinnslunnar hins vegar. Þessir aðilar fylgjast nákvæmlega með því frá degi til dags, milli vikna og mánaða. En meðan ekki eru til lög um fjárhagslegan aðskilnað er möguleiki á að færa á milli greinanna, færa á milli útgerðarinnar og fiskvinnslunnar þannig að endanlegur ársreikningur sem út kemur þarf ekki endilega að endurspegla raunkostnað við útgerð eða fiskvinnslu og sýnir þar af leiðandi ekki raunafkomu, hvorki útgerðarinnar né fiskvinnslunnar.

Þeir aðilar sem kaupa fisk á fiskmörkuðum reka flestir hverjir fyrirtæki sín þannig að þeir fara inn á þá markaði sem gefa hæsta verðið hverju sinni. Þeir verða að gera það til að vera samkeppnishæfir um hráefnið á fiskmarkaði. Þeir sem eru með eigin útgerð geta hins vegar, ef þeir svo kjósa og menn hafa rökstuddan grun um að það sé í mörgum tilfellum svo, greitt lægra verð fyrir fiskinn af eigin skipum til að taka hann inn í fiskvinnsluna og hagnast vel á fiskvinnslunni. Við vitum náttúrlega að lægra fiskverð þýðir lægri laun til sjómanna. Það er sparnaður fyrir fyrirtæki sem er bæði með útgerð og fiskvinnslu að greiða lágt fiskverð því að þá þarf ekki að skipta af háa fiskverðinu til sjómanna á skipunum.

Ég tel að það sé eðlileg krafa sem hér kemur fram, að við sjáum þarna fjárhagslegan aðskilnað, bókhaldslegan aðskilnað. Slíkar kröfur eru gerðar til flestallra annarra atvinnugreina. Nýlega voru samþykkt raforkulög. Þar þótti nauðsynlegt og eðlilegt, og allir sammála um það, að skilja á milli framleiðslu, sölu og dreifingu og smásölu. Flestir fallast á að þetta verði að vera gegnsætt þannig að ljóst sé að menn séu að keppa á jafnréttisgrunni. Þetta gildir í fjarskiptamálum, hjá Símanum, Og Vodafone við heyrum þetta á hverjum degi. Það er nauðsynlegt að skilja á milli grunnnetsins og síðan annarrar starfsemi eða GSM-starfsemi og annarrar símastarfsemi. Það er mjög skýrt dæmi. Það eru ekki aðrir með heimilissíma en Síminn en það eru aðrir með GSM-síma. Þess vegna segja menn: Það er nauðsynlegt að Síminn haldi GSM-þjónustunni sér þannig að hann sé ekki að niðurgreiða frá heimilissímum yfir í GSM. Það þarf að vera hægt að bera saman og sjá hvort menn keppa á jafnréttisgrunni eða ekki.

Hið nákvæmlega sama gildir í fiskvinnslunni og útgerðinni. Það verður að vera hægt að sjá hvort þeir sem kaupa á mörkuðum keppi á jafnréttisgrunni við þá sem fá fisk frá eigin útgerð, herra forseti.