131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[14:30]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er réttmæt ábending sem kom fram hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni varðandi það sem við ræddum rétt áðan. En þegar ég talaði um aðskilnað í fjarskiptum og hjá Símanum vitnaði ég til úrskurða sem Samkeppnisstofnun hefur fellt um að ekki sé verið að greiða niður GSM-þjónustu hjá einum sem hefur grunnnetið á sínum snærum og heimilissímana og hægt sé síðan að bera saman rekstur GSM-þjónustu hjá þeim aðila og öðrum þeim nýjum sem koma inn.

Af hverju menn vilja ekki fjárhagslegan og bókhaldslegan aðskilnað í útgerð og fiskvinnslu, ég átta mig ekki almennilega á því. Ég hélt að það væri tiltölulega einfalt og öllum til góða að sjá það, því að ef þetta væri orðin lagaskylda gerðu öll fyrirtæki þetta og þá sæju menn fljótlega hvort þeir væru að hagnast annars vegar á útgerðinni eða fiskvinnslunni hins vegar og gætu þá einbeitt sér að þeim rekstri sem þeir eru góðir í, þannig að þeir sem eru bestir í fiskvinnslu stundi fiskvinnslu og þeir sem bestir eru í útgerð stundi þá útgerð. Ef menn eru góðir í hvoru tveggja og vilja reka þetta saman, þá geta þeir það miðað við þessa þingsályktunartillögu eins og hún er, en þurfa þá að halda í bókum sínum uppgjöri hvors þáttar um sig aðskildum. Það liggi alveg fyrir hvað hvor þáttur kostar og hversu miklu hvor þáttur skilar í framlegð í rekstri viðkomandi.

Sérstaklega finnst mér mikilvægt þegar við horfum á það að sjómenn taka laun sín eftir fiskverði og taka laun sín miðað við það fiskverð sem verið er að greiða frá fiskvinnslu til útgerðar, að það sé eins gagnsætt og mögulegt er að verið sé að greiða það verð sem eðlilegt er hverju sinni, það markaðsverð sem gildir hverju sinni.