131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[14:33]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem sagt hefur verið að þetta mál sem hér liggur fyrir er ekki alveg nýr kunningi, þetta er má segja gamall kunningi hér í þinginu og sjálfsagt að slík mál séu rædd. Reyndar eru ekki svo mörg sjávarútvegsmálin til umræðu um þessar mundir, því er það vissulega ánægjulegt tilefni að geta aðeins farið að ræða þau mál og fara aðeins yfir sjávarútvegsmálin, m.a. út frá þeim sjónarhóli sem hérna er vísað til.

Ég hef á hverju ári gluggað í umrædda tillögu og þó að ég hafi lesið hana og hlýtt oft af athygli á ræður þeirra sem hafa talað fyrir þessu máli, þá get ég strax gert þá játningu að ég er ekki nær því en ég var í upphafi að vilja styðja málið og tel reyndar að það væri ákaflega óskynsamlegt ef það fyrirkomulag sem verið er að gefa til kynna væri staðfest og leitt í lög á einhvern hátt. Eins og lesa má af greinargerð tillögunnar er ég ekki í neinum vafa um að það yrði ákaflega skaðvænlegt fyrir íslenskan sjávarútveg, íslenskt þjóðarbú, ekki síst landsbyggðina, og mundi ekki þjóna því markmiði sem í raun liggur þó til grundvallar og ég veit að góður hugur er á bak við tillöguna í sjálfu sér.

Vandi tillögunnar er hins vegar sá að mörgu leyti að hún er ekki skýr. Hér er talað um hugtakið fjárhagslegan aðskilnað. Ég hlustaði á síðasta hv. ræðumann og staðfestingu hv. 1. flutningsmanns á því að allt sem hann hefði sagt væri kórrétt eftir bókinni um hvernig túlka mætti tillöguna. Það sem hv. þingmaður var í rauninni að segja var að það ætti að vera bókhaldslegur aðskilnaður, menn ættu að geta séð það í bókunum sínum hvernig reksturinn gengi.

Virðulegi forseti. Þurfum við að flytja um það sérstaka þingsályktunartillögu? Höfum við ekki einhver lög í landinu sem heita lög um bókhald? (Gripið fram í.) Og ætli þau kveði ekki eitthvað á um það hvernig menn eiga að færa bækur sínar þegar menn færa bókhaldið í fyrirtækjum sínum? Kannast menn ekki við áritun endurskoðenda? Ábyrgð endurskoðenda hefur verið stóraukin í áranna rás með lagasetningu frá Alþingi þar sem segir í áritun endurskoðenda svona efnislega að ársreikningur eigi að gefa glögga mynd af rekstrinum hverju sinni. Ef ársreikningur gefur ekki glögga mynd, hann sé á einhvern hátt blekking frá raunveruleikanum er ljóst að ábyrgir fyrir því eru væntanlega stjórnendur fyrirtækisins og endurskoðendurnir. Þess vegna er það, virðulegi forseti, að ef þetta er tilgangurinn með þingsályktunartillögunni þá sé ég nú ekki til hvers hún er flutt í rauninni, vegna þess að þá er bara verið að árétta það að menn eigi að færa bókhaldið sitt rétt.

Auðvitað er það rétt sem hv. 10. þm. Suðurk. sagði hér áðan og ég veit að hann talar af mikilli þekkingu því að hann hefur rekið sjávarútvegsfyrirtæki. Stjórnendur sem vilja taka hlutverk sitt alvarlega og eru að reyna að reka fyrirtæki sitt vel tryggja það auðvitað að þeir geti lesið út úr ársreikningunum og bókhaldi sínu þær upplýsingar sem þeir þurfa á að halda. Bókhaldið er stjórntæki, það vitum við. Bókhaldið er stjórntæki. Menn nota bókhaldið til að átta sig á því hvort útgjaldaliðirnir og tekjuliðirnir séu í samræmi við það sem menn eru að stefna að.

Ég þekki það vel til rekstrar sjávarútvegsfyrirtækis að mér er mætavel kunnugt um að stærsti einstaki útgjaldaliður til að mynda í fiskvinnslu er hráefnið. Ætli það verði þá ekki að liggja nokkuð skýrt fyrir í blönduðum rekstri hvert hráefnishlutfallið er? Það er reyndar gefið til kynna í þessum texta að það megi gæta þess að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaleyfisrekstri. Reyndar er gefið til kynna í greinargerðinni að með því fyrirkomulagi sem núna ríkir sé verið að flytja fjármuni frá útgerðinni til fiskvinnslunnar. Ætli fiskvinnslumenn kannist við þá lýsingu, að fiskvinnsluhluti útgerðarinnar eða sjávarútvegsins sé svona vel haldinn vegna þess að búið sé að færa frá útgerðinni einhverja tekjuþætti sem ættu að vera þar yfir til fiskvinnslunnar? Það er auðvitað ekki þetta, virðulegi forseti, sem um ræðir.

Við vitum að hinn bókhaldslegi aðskilnaður er til staðar og það er ekkert af því tilefni sem getur knúið menn áfram til að leggja fram þessa þingsályktunartillögu. Það hlýtur að vera eitthvað annað sem vakir fyrir mönnum og það er auðvitað það sem maður sér þegar greinargerðin er lesin. Það er nefnilega ekki verið að leggja það til sem hv. þingmaður talaði um þegar hann reyndi að klæða tillöguna í aðeins sakleysislegri felubúning, heldur er verið að ganga miklu lengra. Það er það sem vakir uppi þegar maður les tillögugreinina ásamt greinargerðinni. Þá sér maður auðvitað að það er verið að leggja miklu meira til.

Það er hins vegar sá galli við tillögugreinina að hún er ekki nógu skýr, og mætti kannski og er ábending inn í umræðuna, að það væri a.m.k. ómaksins vert að gera tillögugreinina það skýra að það liggi þá fyrir hvað verið er að leggja til. Það er ekki bara verið, virðulegi forseti, að leggja til bókhaldslegan aðskilnað heldur miklu meira. Hvað er þá verið að leggja til? Jú, það er verið að leggja til að gerð séu hrein skil þarna á milli. Sá sem rekur útgerð og fiskvinnslu verður þá væntanlega að tryggja bæði verðmyndun innan fyrirtækis síns á þann hátt að hann geti ekki með neinu móti komið þar að.

Þá er það augljóst mál, sem allir hagsmunaaðilar hafa komið auga á og hafa sífellt talað um þegar þessi mál hefur borið á góma, að krafa um að slíta þarna algerlega á milli er krafa um að veikja sjávarútvegsfyrirtækin sem gerir það að verkum að þau eiga erfiðara með þá meginskyldu sína, þ.e. að mæta kröfum viðskiptavinarins. Og alveg sama hvernig við lítum á sjávarútvegsumhverfið í heild sinni, hvort sem við horfum á útgerðarþáttinn, vinnsluþáttinn eða markaðsþáttinn, sem er sérstaklega fróðlegt vegna þess að hér inni eru menn sem hafa starfað við þann hluta, markaðsþáttinn, þá vitum við að það sem meginmáli skiptir og var t.d. styrkur okkar Íslendinga áratugum saman þegar aðrar þjóðir gátu ekki státað af því, var nákvæmlega það að við vorum í þeirri stöðu að geta tryggt framboð á markaðina.

Hafi þetta verið mikilvægt á þeim tíma sem gömlu, góðu sölusamtökin voru allsráðandi, þá er þetta auðvitað margfalt meira áríðandi núna vegna þess að hlutur ferskfisksvinnslunnar í íslenskum sjávarútvegi er meiri og fer stöðugt vaxandi og er raunar sá þáttur íslensks sjávarútvegs sem á síðustu árum hefur vaxið jafnt og þétt og skilað sér sem hluti af viðbótartekjumyndun í íslenskum sjávarútvegi. Ætli það sé algjör tilviljun að allir þeir sem maður talar við sem starfa á þessum markaði og hafa þessar miklu skyldur í stóru fyrirtækjunum úti um allt landið, leggja ofuráherslu á að geta tryggt sér tiltekið hráefnisframboð til að geta brugðist við óskum viðskiptavinanna.

Hér var vitnað til ágætrar ferðar sem við í sjávarútvegsnefnd Alþingis fórum og hittum að máli fulltrúa Samtaka fiskvinnslu án útgerðar. Við fórum líka í fyrra ferð um Eyjafjörð og við höfum verið á ferðinni á Vestfjörðum. Það er alveg sama við hvern maður talar í þessum efnum, það er alltaf það sama sem blasir við, þ.e. að sjávarútvegurinn er að breytast að því leytinu til að hann er að verða mun meðvitaðri um markaðshlutverk sitt. Þess vegna skiptir öllu máli að ekki sé slitið á milli útgerðar og fiskvinnslu, að menn geti, sjái menn hagsmunum sínum best borgið þannig, og hafi það vald líka (Forseti hringir.) að ráðstafa hráefni sínu til þess að tryggja öruggt framboð inn á markaðina sem menn (Forseti hringir.) eiga að þjóna.