131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[14:50]

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þarf hvorki ræðu frá mér né hv. þm. Jóni Gunnarssyni til þess að segja mönnum frá því að verð á fiskmörkuðum er hærra en verð í beinum viðskiptum. Það er búið að vera þannig, held ég, alveg frá því að fiskmarkaðirnir voru stofnaðir. Það koma að vísu tímar þar sem þetta breytist. Við þekkjum það að þegar sveiflur verða hér á fiskverði þá gerist það stundum að fiskverð á mörkuðum fylgir ekki alveg eftir, fiskverð á mörkuðum verður kannski lægra um tíma og hærra í beinu viðskiptunum, en almenna reglan er sú, og það er auðvitað skýringin á því sem hv. þingmaður var að segja.

En kjarni málsins er auðvitað sá sem ég er að reyna að leggja áherslu á hér og það er: Telja menn óeðlilegt að sá sem er í þeirri stöðu að vera bæði með bát og fiskvinnslu hafi einhvern umframaðgang að sínu eigin hráefni? Hv. þingmaður var sjálfur að reyna að draga úr ótta manna við það áðan í ræðu sinni að það væri nokkuð verið að taka þann rétt af mönnum en svo þegar hann kemur hér í andsvar finnst mér hann tala á allt annan hátt. Mér finnst mjög mikilvægt að þetta sé algjörlega útskýrt í þessari umræðu: Er verið að tala um að menn megi ekki njóta forgangs að sínu eigin hráefni eða er hér verið að tala um einhverja allt aðra hluti? Hvernig ætla menn þá að gera þessa hluti? Mér finnst að menn verði þá að stafa þetta alveg niður af því að tillögugreinin leiðir það alls ekki ótvírætt í ljós.