131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[14:52]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson staðfesti hér það sem ég var að segja að verð fyrir hráefni er mun hærra hjá þeim sem ekki stunda útgerð en hjá þeim sem hafa bæði útgerð og fiskvinnslu á sínum snærum. Það segir í raun allt sem segja þarf og segir okkur líka að það sé eðlilegt að í bókum þessara fyrirtækja sé aðskilnaður þannig að það liggi fyrir með alveg skýrum og glöggum hætti að það sé fjárhagslegur aðskilnaður þarna á milli, að annars vegar séu menn að reka útgerðardeild og hins vegar séu menn þá að reka fiskvinnsludeild. Það er ekkert sem segir að menn sem bæði reka útgerð og fiskvinnslu geti ekki landað öllum þeim afla sem þeim dettur í hug inn í eigin vinnslur svo framarlega sem þeir borgi sama verð fyrir það og gengur og gerist á markaði og séu þá að keppa í vinnslunni við aðrar vinnslur á jafnréttisgrunni. Það hlýtur öllum að vera ljóst að það er sanngirnismál og mundi styrkja þegar frá liði þau fyrirtæki sem bæði eru með vinnslu og útgerð, vegna þess að þau færu þá kannski að reka fiskvinnsluna, sum hver, með öðrum hætti en þau gera í dag.