131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[14:53]

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að í seinna andsvarinu hafi hv. þingmaður aftur siglt aðeins nær mér í þessu máli þegar hann sagði að það þurfi fyrst og fremst að vera skýrt í bókunum hver sé útgerðarþátturinn og hver sé fiskvinnsluþátturinn. Það er auðvitað rétt, þannig á það að vera. Það er bara einfaldur hlutur og allir stjórnendur hljóta að leggja áherslu á það og þá kemur auðvitað mjög skýrt fram hvert hráefnishlutfallið er. Þær tölur sem hv. þingmaður nefndi eru ábyggilega ekkert fjarri lagi, 50–60% hráefnishlutfall. Við höfum auðvitað séð hvað hefur verið að gerast í fiskvinnslunni ef við lítum yfir smátíma. Það er að við þær aðstæður sem skapast hafa á undanförnum árum þar sem sannarlega hefur orðið hækkun á hráefnisverði, sem hefur bæði komið fram í bókum blandaðra sjávarútvegsfyrirtækja og hreinna fiskvinnslufyrirtækja, þá hefur hráefnishlutfallið verið að hækka. En hvað hefur gerst? Launahlutfallið hefur verið að lækka. Ástæðurnar eru þær að bæði hefur orðið tæknibreyting og launakostnaður af þeim ástæðum lækkað, en líka hitt að það fer ekki á milli mála að þessi hækkun á hráefniskostnaði hefur leitt til þess að laun fiskverkafólks hafa setið eftir. Það er auðvitað augljóst mál að þegar verið er að skipta einhverri púllíu hefur þetta áhrif og sem hluti af breytilegum kostnaði hefur launaþátturinn í fiskvinnslunni verið að lækka (Forseti hringir.) sem hefur auðvitað verið afleiðing af því að hráefnisverðið hefur verið að hækka.