131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[14:57]

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má vel vera að ég hafi ekki haft skýrleika til þess að skilja einhverja hluti sem hv. þingmanni finnst mjög auðskiljanlegir. Ég hugga mig þó a.m.k. við að vera ekki alveg einn um það í þessum sal því ég hef ekki heyrt betur en að menn hafi túlkað þessa tillögugrein dálítið út og suður, og eftir þessa umræðu er það t.d. alls ekki ljóst og verður auðvitað að skýra það í meðferð nefndarinnar þegar hún tekur málið fyrir, við hvað hér er átt nákvæmlega.

Hér vísaði hv. þingmaður í orðin „eðlilegrar verðmyndunar á öllum óunnum fiski á markaði“. Er hv. þingmaður þar með að segja að aðili sem á útgerð og fiskvinnslu megi ekki eiga innbyrðis viðskipti um þessi mál? Á hv. þingmaður við það? Eða á hv. þingmaður t.d. við það sem hv. þm. Jón Bjarnason gerði að meginumræðuefni í ræðu sinni að það mætti ekki hafa það fyrirkomulag sem núna ríkir að menn selji beint á erlenda markaði og menn eigi að selja í gegnum innlenda markaði? Er það t.d. hluti af því máli sem hér er verið að tala um? Það er auðvitað heilmikið mál. Við vitum eins og kom fram í máli hv. þingmanns að það hefur orðið mikil aukning á útflutningi á óunnum fiski án þess að hann komi við á íslenskum fiskmörkuðum. Það getur auðvitað haft heilmikil áhrif á aðra verðmyndun í landinu. Á hv. þingmaður við það? Það eru slíkir hlutir sem þurfa auðvitað að liggja algjörlega skýrir fyrir því umræðan hefur a.m.k. ekki skýrt það.