131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[14:59]

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af því sem hv. þingmaður sagði um hvernig meðferð málið mundi fá í sjávarútvegsnefnd. Ég sit þar eins og aðrir óbreyttir þingmenn. Auðvitað hefði ég mikinn áhuga á því að málið yrði krufið til mergjar, að við færum vel ofan í þetta, ræddum við hagsmunaaðila, færum t.d. yfir það með fulltrúum í fiskvinnslu á Patreksfirði, Ísafirði og Sauðárkróki svo ég taki bara þrjá staði þar sem ég þekki nokkuð til og veltum því svolítið fyrir okkur með þeim aðilum hvaða áhrif þetta hefði ef t.d. væri farið eftir túlkun þeirrar tillögu sem felur í sér að útgerðarmenn og fiskverkendur sem reka sameiginlega fyrirtæki megi ekki eiga viðskipti eins og gefið var til kynna fyrr í umræðunni. Við skulum bara … (Gripið fram í.) Við skulum bara fara ofan í þessi mál þannig að menn geri sér nákvæmlega grein fyrir hvað við er að eiga. Aðilar sem hafa t.d. lagt ofuráherslu á að styrkja hráefnisöflun sína vegna þess að þeir hafa séð að það er forsendan fyrir því að þeir gætu sinnt mörkuðunum. Við skulum bara ræða þessi mál við þessa aðila. Ég held að það væri mjög spennandi og ef það leiðir (Forseti hringir.) eitthvað jákvætt í ljós afgreiðum við málið væntanlega.