131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[15:26]

Gunnar Örlygsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvernig stendur á þessu stórkostlega skilningsleysi stjórnarliða þegar kemur að sjávarútvegsmálum? Ég hef eina skoðun á því: Metnaðarleysi, stórkostlegt metnaðarleysi. Sjávarútvegur er ekki ræddur innan stjórnarflokkanna svo sem sýnt er. Hér vantar framsóknarmenn enda hafa þeir talið landbúnað stærstu atvinnugrein þjóðarinnar og það er því kannski sú eina góða skýring sem þar liggur fyrir.

Ég vil spyrja hv. þm. Halldór Blöndal spurningar: Hvernig stendur á því að hv. þingmaður heldur að fyrirtæki eins og Samherji, sem ég tek undir með honum að er gott fyrirtæki, geti ekki áfram keypt hráefni til vinnslu þó svo að fiskur fari á markað? Ef þeir eru svona góðir í vinnslu og markaðssetningu, af hverju geta þeir ekki farið í keppni við önnur og yngri fyrirtæki í landinu um hráefni? Þetta eru nefnilega tveir gjörólíkir hlutir, annars vegar útgerð og hins vegar fiskvinnsla.

Mér finnst hún ótrúleg, þessi skammsýni, virðulegi forseti, að hv. þingmaðurinn skuli virkilega halda að fyrirtæki eins og HB Grandi og Samherji geti ekki áfram keypt hráefni til vinnslu sinnar (Forseti hringir.) þó svo að hér verði aðskilnaður á útgerð og fiskvinnslu í landinu.