131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[15:40]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var undarlegt að sitja í salnum og hlusta á hv. þm. Halldór Blöndal standa á öndinni við að snúa út úr því máli sem hér er til umræðu. Við erum að fjalla um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri útgerðar og fiskvinnslu. Það er allt og sumt sem verið er að tala um og veldur geðshræringu hv. þingmanns.

Telur hv. þingmaður eðlilegt að venjulegar samkeppnisreglur gildi í sjávarútvegi eins og í annarri atvinnustarfsemi á Íslandi? Það er fyrsta spurning mín. Síðan þætti mér vænt um það ef hv. þingmaður gæti sagt mér hvað veldur því að hlutfall hráefnis af söluverðmæti fyrirtækis í fiskvinnslu án útgerðar er í kringum 80% þegar hlutfall hráefnis af söluverði fyrirtækja sem einnig stunda útgerð er í bilinu 50–55%. Er það vegna þess að fyrirtæki sem stunda líka útgerð kunna svo mikið betur til verka í fiskvinnslu eða selja vöru sína á svona miklu hærra verði en hin fiskvinnslufyrirtækin?