131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[15:42]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er vani reyndra þingmanna að svara ekki spurningum ef erfitt er að svara og fabúlera heldur um eitthvað annað þann stutta tíma sem þeir hafa til svara.

Hv. þm. Halldór Blöndal svaraði hvorugri spurningunni sem ég varpaði fram í fyrra andsvari mínu. Mér þætti vænt um að hv. þingmaður reyndi að svara þeim í seinna andsvari sínu.

Jafnsögufróður maður og hv. þm. Halldór Blöndal fór í máli sínu út í ákveðna sögufölsun þar sem hann hélt því fram að stóru frystihúsin og stóru útgerðirnar hefðu verið frumherjar við að koma ferskum fiski á markað með flugi. Það er ekki rétt. Það vita það allir sem komið hafa nálægt þessum iðnaði og það hef ég sjálfur gert undanfarin 25 ár. Það voru litlar fiskvinnslur sem flestar hverjar náðu sér í hráefni frá öðrum sem hófu útflutning á ferskum flökum og hafa rutt þá braut sem stóru fyrirtækin fylgja nú og gerast sporgöngumenn þessara litlu fyrirtækja.