131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[15:51]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum í dag tillögu til þingsályktunar um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri útgerðar og fiskvinnslu. Þar er ályktað að Alþingi feli ríkisstjórninni að skipa nefnd sem fái það verkefni að semja frumvarp til laga um fjárhagslegan aðskilnað milli reksturs útgerðar annars vegar og fiskvinnslu í landi hins vegar.

Ég tel að hér sé á ferðinni þarft og gott mál. Hv. þm. Jón Gunnarsson fór áðan yfir sögu þessa máls á Alþingi og greindi réttilega frá því að mælt hefði verið fyrir þingsályktunartillögunni mörg undanfarin ár en hún hafi alltaf hlotið sömu örlög. Hún hefur verið afgreidd í atkvæðagreiðslu frá hinu háa Alþingi inn í sjávarútvegsnefnd og síðan ekki söguna meir. Eftir það heyrist ekki meira af henni. Ég verð að segja að þau vinnubrögð eru vægast sagt forkastanleg.

Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson hélt áðan ræðu þar sem hann fór mikinn í gagnrýni sinni á þessa þingsályktunartillögu og fann henni flest til foráttu. Nú situr hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson í sjávarútvegsnefnd. Hann er reyndar ekki í salnum að því ég fæ best séð en mig langar að spyrja hann: Hvers vegna er hann ekki reiðubúinn til að taka umræðu um þessa þingsályktunartillögu í sjávarútvegsnefnd Alþingis þar sem hann á sæti? Hvers vegna hefur hann ekki verið reiðubúinn til þess undanfarin ár? Hann hefur verið þar í nokkur ár. Hvers vegna hefur hann ekki viljað taka umræðu um þessa þingsályktunartillögu? Hvers vegna hefur þingmeirihlutinn í sjávarútvegsnefnd ekki viljað koma með breytingartillögur við tillöguna? Hvers vegna hafa þeir ekki viljað senda hana aftur í sali hins háa Alþingis, fá hana inn í síðari umræðu, til atkvæðagreiðslu og hreinlega fella hana í eitt skipti fyrir öll fyrst hún hugnast þeim svona afskaplega illa?

Það er satt best að segja, virðulegi forseti, bæði sóun á tíma og peningum að hér séu lagðar fram þingsályktunartillögur og mælt fyrir þeim á hinu háa Alþingi ár eftir ár, þær sendar inn í nefndir og hagsmunaaðilar beðnir um umsagnir en síðan ekki söguna meir. Þetta er sóun á tíma og peningum og Alþingi er dýrt í rekstri. Okkur ber skylda til þess, okkur sem erum á hinu háa Alþingi, að sjá til þess að störf Alþingis séu ávallt sem skilvirkust til gagns fyrir land og þjóð.

Virðulegi forseti. Ég minntist áðan á umsagnir og mig langar að fara aðeins yfir þær. Ég skoðaði aðeins sögu þessa máls þegar ég undirbjó mig fyrir umræðuna. Ég hef nokkrar umsagnir fyrir framan mig og það kemur í ljós að samtök sjómanna, stéttarfélög sjómanna, eru eindregið fylgjandi þessari tillögu. Bæði Sjómannasamband Íslands og Vélstjórafélagið. Þegar við komum hins vegar að Sambandi fiskvinnslustöðva, sem eru fiskvinnslustöðvar í eigu útgerðar sem eiga kvóta, þá eru samtök fiskvinnslustöðva alfarið á móti þessu og telja að þessar breytingar mundu valda skaða. Í bréfi sem undirritað er af Arnari Sigurmundssyni, formanni Samtaka fiskvinnslustöðva, og dagsett 26. nóvember 2003 segir, með leyfi forseta:

„Við teljum að slíkar breytingar gætu á skömmum tíma orðið til þess að minnka atvinnuöryggi fiskvinnslu og möguleika sjávarútvegsfyrirtækja til útrásar í framtíðinni. Rekstur sjávarútvegsfyrirtækja krefst mikillar skipulagningar jafnt í veiðum, vinnslu og markaðssetningu afurðanna. Rofni þessi keðja er afkoman í hættu.“

Ég vil fá að nota tækifærið til að lýsa þeirri skoðun minni að ég hef engar áhyggjur af því að núverandi fyrirtæki, fiskvinnslufyrirtæki, sjávarútvegsfyrirtæki sem eiga kvóta og hafa stundað fiskvinnslu í mörg ár og jafnvel um áratuga skeið, með fullkomna vinnslu, mikla sérþekkingu og duglega menn sem stjórna þessum fyrirtækjum, ættu erfitt með að spjara sig í frjálsri samkeppni um hráefni á mörkuðum. Ég hef engar áhyggjur af því. Að sjálfsögðu mun þeim fyrirtækjum takast að útvega sér það hráefni sem þau þurfa á að halda í frjálsri samkeppni, að sjálfsögðu. Það er fásinna að tala eins og fiskveiðar muni nánast leggjast af við það að skilja fjárhagslega á milli veiða og vinnslu á Íslandi. Það er vitleysisumræða og þar er verið að mála skrattann á vegginn, heldur betur.

Mig rekur minni til þess að hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, sem er fjarverandi sem stendur, nefndi það í ræðu sinni að hann og ótilgreindir nefndarmenn í sjávarútvegsnefnd hefðu hitt einhverja Norðmenn, menn úr norskum sjávarútvegi, sem sögðu að í Noregi væri allt á vonarvöl vegna þess að þar væri skilið á milli veiða og vinnslu. Annaðhvort eru þetta fordómar hjá hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni eða þá að hann talar af hreinni vanþekkingu. Málið er að í Noregi gilda mjög sérstök lög. Þar er á hverju ári samið á milli samtaka sjómanna, sem einnig eru iðulega útgerðarmenn, við samtök fiskvinnslu um fast lágmarksverð á fiski. Það verð hefur oft og tíðum verið mjög hátt enda ekki í neinum tengslum við lögmál framboðs og eftirspurnar. Lögmál framboðs og eftirspurnar fá ekki að ráða eins og við leggjum til með þessari þingsályktunartillögu. Þar er þetta miðstýrt verðmyndunarkerfi. Það er að stórum hluta ástæðan fyrir því að norskur sjávarútvegur á í erfiðleikum. Það er reginfirra hjá hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni að halda því fram að vandræði norsks sjávarútvegs hafi eitthvað með skilin milli fiskvinnslu og veiða að gera.

Í Færeyjum er skilið milli veiða og vinnslu. Þar er prinsippið það að fiskur fari á markað en hins vegar geta fiskvinnslufyrirtæki gert langtímasamninga við útgerðir og sjómenn fiskiskipa um að þau landi afla sínum hjá tilteknum fyrirtækjum til lengri tíma. En þá skal verð á hverjum tíma, upp úr skipinu, taka mið af markaðsverði, þ.e. verði á frjálsum uppboðsmörkuðum á hverjum tíma. Með þeim hætti geta stærri fiskvinnslufyrirtæki í Færeyjum tryggt sér fastan aðgang eða áskrift að hráefni. Þar gilda lögmál hins frjálsa markaðar, hin frjálsa samkeppni ræður verðmynduninni á hverjum tíma.

Við skulum muna, hæstv. forseti, að verð getur bæði verið hátt og lágt. Hér gildir lögmálið um framboð og eftirspurn og maður skyldi ætla að maður ekki þurfi að veita hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, stjórnmálaflokksins sem boðar frjálsa samkeppni á mörkuðum, grunnkúrs í hagfræði úr ræðustól Alþingis, fræða þá um hvernig lögmálið um framboð og eftirspurn virkar. Það er með ólíkindum. Það er nefnilega þannig, hæstv. forseti, að verðmyndun á fiski, eins og hún er í dag, er mjög gölluð og meira að segja útgerðarmenn kvarta yfir því.

Ég er með viðtal úr fréttablaðinu Vaktin sem gefið er út í Vestmannaeyjum, við Sigurgeir Brynjar Kristjánsson sem er forstjóri Vinnslustöðvarinnar. Hann kennir því um að stór hluti af ferskfisksafla Vestmannaeyinga er fluttur óunninn úr landi. Hann segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Miðstýrð verðlagning Verðlagsstofu gerir það að verkum að það borgar sig ekki að vinna fisk.“

Miðstýrð verðlagning. Hér er hann að kvarta yfir því að verðlagning á fiski á Íslandi sé miðstýrð og þess vegna þurfi hann að flytja hráefnið úr landi. Ég læt máli mínu lokið að sinni en ég mun koma nánar inn á þessi atriði í seinni ræðu minni um þetta mál.