131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[15:59]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram fróðleg umræða um þessa tillögu lengi dags enda kannski ekki vanþörf á að menn tækju upp umræður sem sneru að sjávarútveginum í landinu. Það hefur vakið athygli þeirra sem á umræðuna hlýða að stjórnarandstaðan annars vegar og stjórnarliðar skiptast í tvo andstæða hópa í þessu máli. Þeir stjórnarliðar sem hér hafa talað, sem hafa eingöngu verið frá Sjálfstæðisflokknum, hafa talið að málið í heild sinni væri mjög slæmt og mundi leiða til mikilla vandræða ef fylgt yrði eftir þeirri hugsun að taka upp verðmyndun sem tengdist fiskmarkaði og tryggja fjárhagslegan aðskilnað milli veiða og vinnslu.

Ég hygg að sennilega sé ekki hægt að draga upp skarpari andstæður í þessari umræðu milli okkar í stjórnarandstöðunni annars vegar og ríkisstjórnarflokkunum hins vegar en þau ummæli hv. þm. Halldórs Blöndals, sem ég held að ég hafi náð að skrifa orðrétt eftir honum áðan. Hann spurði mig hvaða rekstrargrundvöll ég teldi að fiskvinnslufyrirtæki hefðu sem ekki hafa rétt til fiskveiða.

Ég veit ekki til þess að tillaga okkar gangi út á það að menn megi ekki gera út til fiskveiða. Það er með engum hætti verið að leggja höft á það með þessari tillögu, breyta því hverjir gera út hér á landi. Það er algjör misskilningur hjá hv. þm. Halldóri Blöndal ef hann dregur þá ályktun að við séum að setja fótinn fyrir það að menn geti gert út. Við ætlumst hins vegar til þess að þessar rekstrareiningar, fiskvinnslan annars vegar og útgerðin hins vegar, verði aðskildar og hafi sínar eigin forsendur, sitt eigið bókhald og sínar eigin hagnaðartölur. Það er ekkert sjálfgefið að hluthafar séu þeir sömu í útgerð og fiskvinnslu þó að fyrirtækin séu verulega tengd. Ég bendi á það, hæstv. forseti, að það er til þó nokkuð af slíkum fyrirtækjum þar sem t.d. hluti áhafnar og skipstjóri eiga í útgerð með fiskvinnslufyrirtækjum.

Það er ekki með neinum hætti verið að ákveða það með þessari tillögu hverjir gera út á Íslandi. Ég átta mig alls ekki á þeirri fullyrðingu, sem kemur fram í spurningunni vil ég segja, að fiskvinnslur megi ekki eiga aðild að útgerð og hafi ekki rekstrargrundvöll nema þær hafi fiskveiðiheimildir eða kvóta. Heldur hv. þm. Halldór Blöndal því fram að kvótinn skipti öllu máli í því að fiskvinnslur geti rekið sig? Ég mótmæli því að svo sé, að fiskvinnslurnar þurfi endilega að hafa eignarhald á kvóta til að geta rekið sig, og ég vil til sönnunar því benda á rekstur fjölmargra fyrirtækja innan Samtaka fiskvinnslustöðva án útgerðar sem hafa markað braut nýrra fiskviðskipta og nýrra vinnslugreina hér á landi á undanförnum árum.

Það er einfaldlega þannig að stóru útgerðarfyrirtækin hér á landi hafa í raun verið sporgöngumenn þessara fyrirtækja. Það er bara svo, sérstaklega í ferskfiskvinnslunni. Þau hafa verið að koma inn í ferskvinnsluna á eftir þeim fyrirtækjum sem rutt hafa brautina. Ég get nefnt fyrirtæki eins og Toppfisk sem hefur allan sinn tíma keypt hráefni sitt á markaði og rekur myndarlega fiskvinnslu úti á Grandanum í Reykjavík, kaupir fisk á fiskmörkuðum vítt og breitt um landið af ýmsum útgerðum, stórum sem smáum. Þetta er fyrirtæki sem byrjaði mjög snemma að flytja út ferskan fisk og leita að mörkuðum fyrir ferskan fisk þannig að það fer ekkert á milli mála hverjir hafa verið að ryðja brautina í þessari nýsköpun varðandi ferskfiskinn. Það verður ekki með rökum sett yfir á þau fyrirtæki sem stærst eru í sjávarútvegi á Íslandi. Þau höfðu því miður ekki þessa framsýni á sínum tíma þó að þau hafi síðar farið að keppa inni á þessum markaði og jafnvel komið þar inn með boð á verði á fiski sem hefur verið undir því verði sem menn hafa verið að flytja út á.

Í fyrirtækinu Nýfiski í Sandgerði vorum við sem vorum þar á ferð í síðustu viku upplýstir um það af forustumönnum þess fyrirtækis — og er ég með það á blöðum hér í salnum — að almennt hefði Nýfiskur verið að fá 30% hærra verð fyrir afurðir sínar en hefði verið í hefðbundnum greinum í sjávarútvegi. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þau fyrirtæki sem hafa verið að leita að þessum nýju mörkuðum, m.a. fyrir ferskfiskinn, hafa aukið verðmæti sjávarútvegs geysilega fyrir íslensku þjóðina. Það getur ekki verið hlutverk okkar að tryggja að þeir sem hafa aflaheimildirnar geti með einhverjum hætti haldið uppi óeðlilegri samkeppni til framtíðar út á það að hafa veiðiréttinn. Það getur ekki verið hlutverk okkar að tryggja það. Við hljótum að eiga að tryggja það að menn sitji við sama borð varðandi það að geta rekið hér fiskvinnslur, þurfi að vera útsjónarsamir við að leita að mörkuðum, þurfi að keppa á nokkurn veginn jafnréttisgrundvelli að þessu leyti.

Tillagan sem slík sem hér er flutt markar að vísu braut inn á þennan farveg vegna þess að ef fram gengur mun hún aðskilja rekstur fiskvinnslu og útgerðar. Eins og ég gat um gera þeir sem eiga í útgerð annars vegar og fiskvinnslu hins vegar kröfu til þess að fyrirtækin séu rekin með hagnaði. Það mun auðvitað skerpa línurnar og vonandi verða allar tölur uppi á borðum. Ég held að viðskiptahættir mundu breytast af því smátt og smátt. Ég held að það mundi leiða til þess að t.d. sjómenn fengju í framtíðinni sambærilegt verð hvar sem þeir störfuðu á landinu miðað við þann fisk og þau gæði sem þeir legðu á land. Það er auðvitað orðið mjög fróðlegt að skoða hvað er að gerast á íslenskum fiskmörkuðum og hvað hefur verið tekið þar upp á undanförnum árum til að tryggja að menn séu að kaupa þar gæðafisk, tryggja að þeir hafi rekjanleika vörunnar.

Mér fannst gæta misskilnings hjá hv. þm. Halldóri Blöndal, sem kom fram í máli hans, að eingöngu væri um rekjanleika að ræða ef fiskiskip væri í eigu fiskvinnslu og þar væri dagmerkt og getið um hvar fiskur væri veiddur o.s.frv. Á fiskmörkuðunum er fiskur einfaldlega merktur, hv. þingmaður, frá hvaða skipi hann er, hvar hann var veiddur og með hvaða veiðarfærum. Þessi miði er einfaldlega límdur á körin og fylgir þeim alla leið, enda þurfa fiskvinnslur án útgerðar með nákvæmlega sama hætti og fiskvinnslur sem eru tengdar útgerð að gera grein fyrir því hvaðan fiskurinn er kominn, í hvaða veiðarfæri hann var veiddur, frá hvaða svæðum hann kemur o.s.frv. Þar á er engin mismunun. Sú krafa kemur frá kaupendum og þeir leita eftir þessari vitneskju.

Það er mjög æskilegt fyrir allar fiskvinnslur að þær starfi þannig að þær geti verið í sambærilegu umhverfi og að hver og einn finni hjá sér hvata til að gera sem allra best í sinni vinnslu úr sínu hráefni eða úr því hráefni sem menn kaupa. Fiskvinnslurnar í landinu hafa verið að sérhæfa sig til að vinna ýmsar fisktegundir á undanförnum árum og markaðirnir hafa ekki átt minnstan þátt í því að fiskvinnslur gátu sérhæft sig.

Tökum sem dæmi litla fiskvinnslu í Hafnarfirði, Hamrafell sem leggur mikið upp úr því að vinna steinbít, kaupir hann vítt og breitt af landinu. Það væri nánast ekki hægt að reka fiskvinnslu nema sérhæfa sig í steinbít ef hún ekki hefði aðgang að því að kaupa hráefnið á mörkuðum. Það verður að segjast alveg eins og er að slík dæmi má finna í mörgum vinnslugreinum sem menn hafa verið að sérhæfa sig í. Fiskvinnslur án útgerðar hafa verið að sérhæfa sig og fiskvinnslan sem rekin er af stærri fyrirtækjunum hefur einnig verið að sérhæfa sig hin síðari ár. Við getum tekið dæmi núna af Granda sem yfirtók HB á Akranesi og vinnur núna í Reykjavík, karfa og ufsa að mestu leyti ef ég veit rétt, en þorskur og ýsa eru unnin á Akranesi. Þetta er ákveðin sérhæfing og ekkert nema gott um það að segja að menn reyni slíkt. Fiskvinnslur án útgerðar sem kaupa allan sinn fisk á mörkuðum eru líka í sérhæfingu og útgerðin sem slík skiptir ekki 100% máli í því hvort útgerð geti sérhæft sig. Það er eingöngu aðgangur að markaði og hráefni.

Ég held, hæstv. forseti, að menn verði að líta þannig á þá tillögu sem hér er flutt að hún miði að því að breyta viðskiptaháttum með ferskan fisk á Íslandi til framtíðar. Hún leitast við að tryggja það að menn eigi möguleika á að kaupa íslenskan fisk sem veiddur er hér á miðunum og þá er ég líka að tala um þann fisk sem verið er að flytja út í gámum, að fiskvinnslum sé gefinn kostur á að bjóða í það hráefni. Það er ekkert sem mælir sérstaklega með því að fiskurinn sé fluttur út óunninn án þess að menn fái að bjóða í hann. Það er ekkert sem mælir með því . Það hlýtur að vera svo að þeir sem eru að flytja út ferskan fisk séu að leita að hinu hæsta verði. Hvers vegna er þá verið að meina íslenskum fiskvinnslum að bjóða í þann fisk sem verið er að flytja út? Ég tel að menn ættu að hugleiða þetta vandlega. Þetta er m.a. mál sem mér finnst tengjast mjög mikið því máli sem við erum að ræða.

Ég held líka að það yrði fyrirtækjunum til góðs, bæði stórum og smáum, ef sú þróun sem við erum að leitast eftir að verði með þessari tillögu fengi að halda innreið sína í íslenskan sjávarútveg.

Það er auðvitað hægt að setja margs konar reglur um viðskiptaform. Tillaga okkar gerir ráð fyrir slíkum reglum. Það er auðvitað hægt að hugsa sér að á ákveðnum tímum sjái menn til þess að ákveðinn hluti af hráefninu skuli seldur á fiskmarkaði frá hvaða útgerð sem er. Það hlutfall gæti verið stígandi á einhverju árabili. Tillagan markar ekki nákvæmlega þá vegferð en hitt er algjörlega ljóst að hún á að skapa skilyrði til eðlilegrar verðmyndunar á öllum fiski á markaði, stuðla að heilbrigðum og gegnsæjum viðskiptaháttum í fiskviðskiptum og koma þannig á því sem við köllum eðlileg samkeppnisskilyrði á því sviði. Ég held að þetta hljóti öllum að vera skiljanlegt og ég held, hæstv. forseti, að ef slík viðskipti kæmust á — segjum að það tæki t.d. fimm ár, jafnvel tíu að koma því endanlega á að allur fiskur væri seldur á fiskmarkaði — væri slík aðlögun öllum til bóta, ekki síst íslensku þjóðinni sem fengi meira fyrir auðlind sína þegar upp verður staðið en er í dag. Það hlýtur að vera markmið okkar að ná fram breytingum án þess að valda kollsteypum sem leiða þó til þess að við fáum meira út úr íslenskum sjávarútvegi en við höfum núna.