131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[16:14]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Einu sinni hafði hv. þm. Halldór Blöndal, núverandi hæstv. forseti Alþingis, mikinn skilning á því að tryggja nauðsyn þess að nýliðun væri í íslenskum sjávarútvegi. Ég kom aðeins áðan inn á það að ég hefði verið að grúska í sagnfræðinni, gömlum þingskjölum o.s.frv. Ég skoðaði þá m.a. feril þessarar þingsályktunartillögu. Ég fór líka lengra aftur í tímann, aftur til desembermánaðar árið 1983. Þá var til umræðu að setja á kvóta í íslenskum sjávarútvegi. Síðan eru liðin 22 ár. Þá stóð hér í pontu hv. þm. Halldór Blöndal og sagði eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Ég dreg enga dul á að ég hef ávallt verið vantrúaður á að unnt sé að standa vel að fiskveiðum á Íslandsmiðum með því að setja hverju skipi, stóru og smáu, sérstakan kvóta. Til þess eru aðstæður of ólíkar, enda veit ég ekki til að útfærðar hugmyndir að slíku kvótakerfi hafi verið settar fram. Á þessu stigi málsins tel ég nauðsynlegt að eftirfarandi komi fram:

Til þess að kvótakerfi á fiskveiðar sé réttlætanlegt er óhjákvæmilegt að taka tillit til óvenjulegra og sérstakra aðstæðna þeirra útgerðarmanna eða útgerða sem lagt hafa í nýja fjárfestingu, fest kaup á fiskiskipi eða kannski lagt öðru. Ég veit dæmi þess að ungir menn hafa fest kaup á togara nýlega, kostað miklu til að endurbæta hann og lagt eigur sínar að veði í þeirri fullvissu að þeir hefðu sömu möguleika og aðrir til að bjarga sér þótt fyrri eigendum togarans hafi verið mislagðar hendur um aflabrögð. Í slíku tilviki er með öllu óverjandi að ákveða umræddu skipi aflakvóta eftir aflabrögðum þess meðan það var í eigu fyrri eigenda.“

Þannig talaði hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Halldór Blöndal, á hinu háa Alþingi 12. desember árið 1983 og varði rétt íslenskra borgara til að hasla sér völl í íslenskum sjávarútvegi. Hann var meira að segja reiðubúinn til að hlúa að því að ungir og efnilegir menn gætu haslað sér völl í útgerð og það gerði hann svikalaust. Núna, 22 árum síðar, stendur sami þingmaður í pontu og ver einokunarrétt þessara sömu manna til að ráða því sjálfir hvernig verðmyndun á fiski fari fram á Íslandi, hvernig verðmyndunin sé á hráefninu sem aflað er af þeirra skipum og fært inn í þeirra hús. Mér finnst að þingmaðurinn sé að verja óverjandi viðskiptahætti, ég ætla ekki að segja ólögmæta en þetta eru óheilbrigðir viðskiptahættir.

Ég hef enga trú á því að þessir þá ungu menn sem nú eru orðnir aðeins eldri, dugnaðarmenn, ættu í einhverjum vandræðum með að spjara sig þó við mundum skilja á milli veiða og vinnslu. Að sjálfsögðu ættu þeir ekki í neinum vandræðum með það. Þeir færu létt með það og ég skil satt best að segja ekki hvað íslenskir útvegsmenn óttast þó að við mundum skilja fjárhagslega milli veiða og vinnslu á Íslandi, ég hreinlega skil það ekki en það er eitthvað sem þeir óttast mjög. Þeir veðja hreinlega á að stjórnarflokkarnir á Alþingi slái skjaldborg um þessi einkaréttindi þeirra, um rétt þeirra til að ákveða nánast einhliða verðmyndun á fiski á Íslandi. Það kemur glöggt fram í umsögn frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna sem barst inn á Alþingi 6. desember árið 2003, umsögn um þessa sömu þingsályktunartillögu eftir að hafði verið mælt fyrir henni síðast. Þar segir m.a. í stuttu bréfi þar sem hvergi eru tilgreind nein rök fyrir því af hverju má ekki skoða þessa leið, það er bara hreinlega sagt: „Við leggjumst alfarið gegn samþykkt tillögurnar þar sem tillaga sama efnis hefur áður verið flutt án þess að fá framgang treystum við því að það sama gerist nú.“ Bréfið er undirritað af Friðriki Þór Arngrímssyni, framkvæmdastjóra LÍÚ. Þeir treysta því að þingsályktunartillagan verði stöðvuð á hinu háa Alþingi með öllum tiltækum ráðum, að hún fari enn eina ferðina í sjávarútvegsnefnd og eigi ekki afturkvæmt þaðan. Svona koma þessir herrar upp um sig af og til, eflaust alveg óvart en það er alltaf jafngaman að grípa þá glóðvolga þegar þeir koma upp um sig. Ég hygg að ef þessi leið yrði farin, að hráefnið færi á hinn frjálsa markað og að verðmyndunin yrði frjáls, þá mundum við ná miklu meiri virðisauka út úr sjávarútveginum en í dag.

Virðulegi forseti. Ég er með tölur fyrir framan mig um útflutning á fiski frá Íslandi á síðasta ári, 2004, og 2003. Óunnið hráefni sem rennur úr landi. Þetta eru nokkuð sláandi tölur. Árið 2003 var flutt út frá Íslandi 34.331 tonn, árið 2004, í fyrra, voru þetta rétt tæp 50 þús. tonn. Aukningin var 45% á milli ára. Verðmætið er líka mikið. Í fyrra var útflutningsverðmætið upp á 8 milljarða. Árið þar á undan upp á rúma 5,5 milljarða.

Margar sjávarútvegsbyggðir á Íslandi þurfa að þjást mikið út af því að óunninn afli er að flæða úr landinu án þess að fiskvinnslur hér á landi fái nokkur tækifæri til að bjóða í hann. Tökum Vestmannaeyjar sem dæmi. Í fyrra var fluttur út óunninn afli frá útgerðarfyrirtækjum í Vestmannaeyjum að verðmæti 2,4 milljarðar. Þetta er mjög stór hluti af heildarkökunni sem fer frá Íslandi. Er þetta sanngjarnt? Er sanngjarnt að atvinnulífið í Vestmannaeyjum þurfi að blæða fyrir það að útgerðarmenn hafa einkarétt á því að selja fiskinn til þeirra sem þeim dettur í hug? Af hverju má ekki bjóða þennan afla upp? Af hverju mega íslenskar fiskvinnslur ekki fá tækifæri til að keppa um þetta hráefni? Það er talað um að það geti skapað um 100 manns vinnu bara í Vestmannaeyjum og gríðarlegan virðisauka ef aflinn yrði unninn þar.

Ég hlýt að vekja athygli á því í lok máls míns að hvorki formaður sjávarútvegsnefndar, hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, sem er þingmaður Vestmannaeyja, né varaformaður sjávarútvegsnefndar, hv. þm. Birkir J. Jónsson, hafa látið svo lítið að láta sjá sig í allan dag. Þetta er í fyrsta sinn í langan tíma sem við tökum umræðu um sjávarútvegsmál og bæði formaður og varaformaður sjávarútvegsnefndar skrópa í þingsal.