131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[16:23]

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Norðvest., Guðjóni A. Kristjánssyni, fyrir að hafa tekið aftur til máls og farið betur ofan í efni tillögunnar en hann hafði áður gert. Ég verð samt sem áður að lýsa vonbrigðum mínum yfir því að hv. þingmaður tók ekki fast á og hikaði mjög við að ræða hvaða afleiðingar tillagan mundi hafa ef hún næði fram að ganga og yrði framkvæmd, sem aftur á móti hv. 2. þm. Norðvest., Jóhann Ársælsson, gerði mjög myndarlega þegar hann sagði að það yrði sprenging í sjávarútveginum ef allur fiskur færi á markað. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson vildi draga úr þessu með því að segja að það mætti e.t.v. draga að slíkt gerðist, (Gripið fram í.) kannski fimm ár, kannski tíu ár, eitthvað þvílíkt, og vildi draga úr því að tillagan kæmi strax til framkvæmda. Raunar mátti heyra það á ræðu hans að hann vildi standa í báðar lappirnar, tvísté þannig að gefa þeim fiskvinnslum sem ekki eru með útgerð það í skyn að hann vildi setja allan fisk á markað en um leið reyna að halda hinum rólegum með því að segja að hann ætlaði svo sem ekki að taka neitt frá þeim.

En málið er ekki þannig vaxið því það er takmarkaður fiskur í sjónum og sami fiskurinn verður ekki unninn tvisvar og fluttur út ferskur, bæði hjá þeirri fiskvinnslu sem ekki hefur útgerð og hefur útgerð. (Gripið fram í.) Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hefur stundum staðið uppi í ræðustóli og borið sérstaklega fyrir brjósti lítil sjávarpláss sem hv. þingmaður segist vera sérstakur fulltrúi fyrir. Ef við t.d. mundum hugsa okkur það í því sjávarplássi sem nyrst er og afskekktast, Grímsey, hvaða afleiðingar það mundi hafa fyrir byggðina þar ef allur fiskur sem veiddur yrði þyrfti að fara á markað. Hvaða forsendur væru þá fyrir byggð í Grímsey? Það er erfitt að sjá það og ljóst að Grímseyingar mundu ekki una í eyju sinni ef þeir fengju ekki að leggja sig fram og njóta þess sem hafið í kringum eyjuna gefur af sér, nýta þann kvóta sem eyjarskeggjar hafa til að sjá sjálfum sér farborða.

Auðvitað vilja þeir vera frjálsir að því að standa að útgerð sinni og fiskvinnslu sinni eins og þeim þykir hagkvæmast og best, bæði út frá hagsmunum sjálfs sín í þröngri merkingu þess orðs en einnig vilja þeir nokkuð á sig leggja til að halda eyjunni í byggð.

Ég spurði hv. þingmann áðan í vissu samhengi hvaða rekstrargrundvöll fiskvinnslan hefði ef höggvið yrði á tengsl veiða og vinnslu. Auðvitað átti ég við þau stóru fiskvinnslufyrirtæki sem nú eru rekin og háð því að geta gengið að öruggum afla vegna þess að sami aðili á fiskvinnslufyrirtækið og útgerðina eða það eru þá systurfyrirtæki. Ég tók sem dæmi fyrirtæki eins og hraðfrystihús HB Granda á Akranesi sem er mjög vel rekið frystihús og það var alveg rétt sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði að það er verkaskipting á milli þess frystihúss og frystihússins í Reykjavík sem byggist á því að þessi tvö frystihús geta gengið að öruggu hráefni. Ef því væri ekki til að dreifa mundi verkaskiptingin að sjálfsögðu falla um sjálfa sig. Þar að auki veit hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson að til að standast þá hörðu samkeppni sem nú er, m.a. vegna ódýrs vinnuafls í öðrum löndum, er svo komið að fiskvinnslustöðvar standa ekki undir sér nema þær hafi mjög mikla veltu, nema mjög mikið af hráefni, fiski, fari í gegnum þær fiskvinnslustöðvar sem er forsendan fyrir því að þær geti rekið sig.

Ef þarna yrði höggvið á yrði auðvitað ekki sami rekstur áfram. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þá mundi annar rekstur taka við. Þá mundi meir og meir af fiskvinnslunni flytjast til þeirra staða sem næst eru útflutningshöfn eða útflutningsflugvelli og getum við þá horft ýmist til Austurlands eða svæðisins í kringum Faxaflóa. Ég skil það ósköp vel að hv. 10. þm. Suðurk., Jón Gunnarsson, vill berjast fyrir sína menn á Suðurnesjum. Hann vill styrkja stöðu þeirra í fiskvinnslunni en á kostnað annarra með sama hætti og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hefur viljað styrkja sjávarútveg á Vestfjörðum, auðvitað á kostnað annarra í greininni. Þetta er auðvitað skiljanlegt. Ég er hins vegar talsmaður þess að við eigum að standa þannig að veiðum og vinnslu að það gefi þjóðarbúinu sem mest í aðra hönd og ég vil reyna að það sé staðið þannig að þessum fyrirtækjum að þeir sem við þau starfa hafi örugga afkomu, örugga vinnu og geti horft til framtíðar. Á þeim rökum stend ég gegn því að klippa á það samhengi sem verið hefur á milli veiða og vinnslu því ég trúi því að það sé rétt sem hv. þm. Jóhann Ársælsson segir að það verði mikil sprenging í sjávarútveginum ef þetta nái fram að ganga.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur enga tilraun gert til að lýsa því hvað við taki af rústunum eftir að sprengingin hefur orðið. Væri þó vissulega ástæða til að hann gerði það þar sem hann er talsmaður Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum og það verður auðvitað að liggja ljóst fyrir hvernig Samfylkingin sér þessi mál fyrir sér. Hér áðan treysti hv. þingmaður sér ekki til að segja að sú tillaga sem hér liggur fyrir sé studd af þingflokki Samfylkingarinnar, að einstakir þingmenn í Samfylkingunni standi á bak við þennan tillöguflutning. Hér í þingsalnum eru tveir hv. þingmenn Samfylkingarinnar auk hv. þm. Jóhanns Ársælssonar. Ég veit ekki hvort þeir hafa eitthvað til málanna að leggja, það væri fróðlegt að heyra það í ræðu þannig að menn geti gert vel grein fyrir málum sínum. Ég er persónulega ókunnugur skoðunum hv. 7. þm. Reykv. s., Marðar Árnasonar, um sjávarútvegsmál og væri fróðlegt að fá um þau að vita. Mér skilst að hann og hv. þm. Pétur H. Blöndal tali mikið saman í sjónvarpi á morgnana. Það er að vísu ekki uppáhaldsþáttur minn en má vera að hann hafi einhvern tíma þar komið inn á sjávarútvegsmál án þess að spurnir hafi af því farið eða það hafi þótt tíðindi.

Ég tók eftir því að hv. þm. Jón Bjarnason geldur varhuga við efni tillögunnar þannig að það er ekki rétt hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að stjórnarandstöðuflokkarnir standi á bak við þennan tillöguflutning.