131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[16:36]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er nú þakklátur hv. þingmanni að hann skuli ætla að vísa mér til vegar í Grímsey og kenna mér á það hverjir þar búa og hvernig þeir haga sér. Mætti hann gjarnan koma hér upp aftur og halda þeirri góðu kennslu áfram. Það er athyglisvert sem hann segir um þá hluti, að það sé svo sem engin fiskverkun í Grímsey. Þá vitum við það. Það er svona eins og eitt með öðru. Má vera að t.d. á Ólafsfirði treysti menn á hráefni en kaupi ekki allt á markaði.

Það er hins vegar rétt hjá hv. þingmanni, og að því vék ég áðan í ræðu minni, að Stöðvarfjörður er eitt dæmi um það að þar er verið að loka frystihúsi af þeim sökum að hráefni hefur vantað. Við getum tekið annað dæmi á Raufarhöfn og þar fram eftir götunum. Það er vegna þess að það er ekki nægilegur fiskur í sjónum til þess að allir geti fengið þann fisk sem þeir þurfa á að halda.