131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[16:45]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Gerst hefur sá óvenjulegi atburður að hv. þm. Halldór Blöndal hefur óskað eftir að hlýða á skoðanir mínar um tiltekið efni og ég tel ekki annað sæmilegt en að veita hv. þingmanni hlutdeild í þeim skoðunum úr því að sérstaklega er eftir þeim óskað.

Þá er í fyrsta lagi að segja að það er stefna Samfylkingarinnar sem liggur á bak við tillögu þeirra hv. þingmanna Guðjóns A. Kristjánssonar, Jóhanns Ársælssonar og fleiri. Í öðru lagi vekur athygli — þannig að ég snúi þessu nú við — að hv. þm. Halldór Blöndal sagði áðan að ein af afleiðingum þessa máls væri sú að fiskvinnslan mundi færast af útflutningshöfnum og útflutningsflugvöllum. Hann gerir sem sé ráð fyrir að það sé einhver kostnaður sem veldur því að fiskvinnslan er ekki þar nú þegar. Hver skapar þeirri fiskvinnslu samkeppnisstöðu sem getur verið fjarri útflutningshöfnum og útflutningsflugvöllum? Er það fiskverðið, hv. þm. Halldór Blöndal?