131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[16:50]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Mér þykir rétt að bæta við andsvarasyrpuna áðan af þeim sökum að það var eiginlega frekar ég sem sat fyrir svörum en hv. þm. Halldór Blöndal í það skiptið, að ég hef ekki rætt þessi mál sérstaklega við hv. þingmenn, félaga mína Einar Má Sigurðarson og Kristján Möller. Vera má að þeir hafi einhverjar athugasemdir við þessa tillögur eða þá stefnu sem ég hygg að Samfylkingin hafi samþykkt, ég segi þetta aftur með fyrirvara, á þar síðasta landsfundi. Ég hef ekki heyrt þær athugasemdir en þeir hafa auðvitað fullan rétt til þeirra eins og aðrir samfylkingarmenn. Við búum við málfrelsi og skoðanafrelsi í Samfylkingunni en tökum hins vegar afstöðu þegar við erum til þess búin með atkvæðagreiðslu eða almennu samþykki þar sem mönnum leyfist að hafa aðra skoðun. Það mun vera gömul hefð sem einnig var fyrir hendi í Sjálfstæðisflokknum fyrr á tímum og ég hygg að hún hafi enn þá verið við lýði þegar hv. þm. Halldór Blöndal gekk í flokkinn og að ég held enn þá þegar hv. þm. Halldór Blöndal var kjörinn á þing fyrir flokkinn í árdaga þó hún hafi látið á sjá á síðari tímum.

Ég vil segja í framhaldi af þeim umræðum sem ég hef hlýtt á eftir að ég kom í salinn og einnig á skrifstofu minni áður en ég hoppaði yfir túnið, að það hefur verið sérkennilegt að hlusta á tvo gamla íhaldsmenn, hv. þingmenn Einar K. Guðfinnsson og Halldór Blöndal, vera hér hvor sem annar í andstöðu sinni við þessa tillögu og ekki í fyrsta sinn vegna þess að í raun og veru hafa þeir ekki fært fram nein þau rök sem gildi, sem eru tæk í sæmilega heiðarlegri almennri umræðu um málið.

Af hverju er þetta borið fram? Hvaða mál mundi þetta leysa? Hvað mundi gerast ef þessi þingsályktunartillaga yrði samþykkt? Í fyrsta lagi mundi fiskverð á landinu væntanlega breytast og þá á ég við almennt fiskverð, verð í kringum allan fisk en ekki bara þann fisk sem við höfum tiltekið fiskverð á markaði eða einhverja samninga um milli veiða og vinnslu. Þetta varðar auðvitað sjómenn ákaflega miklu og þetta hefur verið baráttumál þeirra lengi, ætli það sé ekki a.m.k. áratugur eða hálfur annar síðan þeir báru fyrst fram þetta mál í svipuðu formi og hv. þingmenn Guðjón A. Kristjánsson og fleiri til að tryggja að þeir væru ekki hlunnfarnir í kjörum með fölsku fiskverði, með fiskverði sem væri búið til út frá annarra hagsmunum en þeirra þar sem þeir eru víðast í þeirri stöðu að vera í félagi um söluna á fiskinum, félagi við útgerðarmann sem selur síðan öðrum aðila fiskinn, sem er fiskvinnslan. Ef svo vill til að útgerðarmaðurinn og fiskvinnslan eru sama persónan í þeim viðskiptum er hætt við að þegar svo háttar verði sjónarmið félagans í sölufélaginu ekki efst á blaði í viðskiptunum.

Í öðru lagi — eins og auðvitað hefur verið rakið ágætavel bæði í þessari umræðu og í fyrri umræðu um þetta mál, en þess var sérstaklega óskað að ég gerði grein fyrir afstöðu minni til þessa sjávarútvegsmáls á þinginu og þess vegna er ég hér — mundi þessi tillaga jafna samkeppnisstöðu í fiskvinnslunni milli þeirra fiskvinnslufyrirtækja sem eiga kvóta eða hafa aðgang að kvóta og þeirra sem ekki hafa kvótann. Þetta mundi sem sagt verða skref í átt til heilbrigðra viðskiptahátta í fiskviðskiptum.

Í þriðja lagi er sennilegt að staðbundin uppbygging mundi aukast aftur á stöðum sem liggja best við sjó því það var í raun kvótakerfið sem fór með hana á ýmsan hátt. Þar mundi verða uppbygging og þetta fyrirkomulag mundi styrkja þær byggðir sem best liggja við sjávarútvegi en þar er þjóðhagslega skynsamlegast að upp byggist sú vinnsla og það starf sem að sjávarútvegi lýtur en ekki á þeim stöðum sem ekki liggja vel við sjávarútvegi. Það er ósköp einfalt. Ég er bara Reykvíkingur og kannski þess vegna leyfi ég mér að koma auga á þetta og segja það í stólnum af því að það er feimni við það af hálfu ýmissa annarra.

Í fjórða lagi hefur, eins og bent er á í greinargerðinni, þetta mál ákveðin tengsl við lögbundin markmið samkeppnislaga. Ég vil ekki frekar en hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson segja að þeir viðskiptahættir sem nú tíðkast séu ólögmætir en þeir eru óeðlilegir og allt að því ósiðlegir og ég er sammála hv. þingmanni um það.

Ég vil síðan segja að að sjálfsögðu eins og hefur verið rakið er hvorki þessi tillaga né neitt annað einhver sá stóri kross sem leysir alla hluti og stofnar guðsríki á jörðu eða kemur hér á einhverri þeirri paradís sem við göngum í eins og Adam og Eva, þurfum ekki þing og þurfum ekki reglur. Auðvitað eru undantekningar sem þarf að taka til greina. Ein af þeim eru staðir eins og Grímsey þar sem háttar þannig til að fiskmarkaðir geta ekki leyst málin. Markaður er ekki alltaf svarið og er ekki hin endanlega lausn á öllum málum. Önnur undantekning er auðvitað frystitogararnir og vinnsla af því tagi sem um þurfa að gilda sérstakar reglur.

Spurningin er þá aftur, forseti: Af hverju eru þeir hv. þingmenn Halldór Blöndal og Einar K. Guðfinnsson og félagar þeirra, þó sennilega ekki allir hv. þingmenn, á móti þessu máli úr því að öll skynsemi og öll rök mæla með því og einmitt sú skynsemi og þau rök sem þeir hafa eða flokkur þeirra hefur haft uppi við um samkeppni, um markaði, um eðlileg viðskipti og á heiður skilið fyrir að hafa haft það í orði og sérstakan heiður fyrir að hafa rekið þá stefnu á borði sem ekki hefur því miður verið á síðari tímum. Jú, það er vegna þess, svo maður vitni aftur í ræðu hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, að Landssamband íslenskra útvegsmanna skipar svo fyrir að þeir skulu vera á móti málinu. Landssambandið gerir slíka skilyrðislausa kröfu til hlýðni af hálfu þessara manna að hætt er að láta fylgja röksemdir með þeirri fyrirskipan. Það er vegna þess að þessir menn líta á sig sem fulltrúa hagsmuna á þinginu, ekki sem fulltrúa almennings, líta á sig sem fulltrúa sérhagsmuna, fyrirtækja sem eiga kvóta og leggjast því gegn tillögu sem með einhverjum hætti skerðir kvótann, hagsmuni fyrirtækjanna en eykur almennan rétt í málefni sem snertir sameiginlega auðlind þjóðarinnar í hafinu. Þar eru þeir félagar samkvæmir sjálfum sér, því það er yfirleitt stefna þeirra og Sjálfstæðisflokksins á síðari tímum að skerða þennan rétt í þágu hagsmunanna.