131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[16:59]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal var með útúrsnúninga af ýmsu tagi og ég sé ástæðu til að bæta fáeinum orðum við það sem ég hef sagt í dag. Fyrst vil ég koma því á framfæri að ég er ekki talsmaður Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum. Við í Samfylkingunni höfum þann sið að láta slík hlutverk ganga á milli manna í þinginu og Jón Gunnarsson er talsmaður okkar í sjávarútvegsmálum núna frá því í haust eða vetur.

Vegna þess að hv. þm. Halldór Blöndal fór mikinn yfir því að ég hefði nefnt orðið sprenging í sjávarútvegi og útlistaði hvað ég hefði átt við með því, þá vil ég fá að gera það sjálfur aðeins betur. Ég tel að ef raunverulegur aðskilnaður veiða og vinnslu verður í landinu og fiskmarkaðir fá að rækja hlutverk sitt vel muni sérhæfing í vinnslu sjávarafurða verða miklu meiri en hún er núna. Fiskmarkaðirnir sýndu okkar fram á það hvernig ná má sérhæfingu í sjávarútvegi á Íslandi án þess að það sé gert innan stórra fyrirtækja. Fiskmarkaðirnir gerðu útgerðarmönnum kleift, sem sjálfir voru t.d. með vinnslu, að leggja hluta af sínum afla upp á fiskmarkaði en vinna sumt sjálfir. Auðvitað geta útgerðarmenn sem eru líka með vinnslu, eiga þá tvö fyrirtæki í sjávarútvegi, haldið því áfram ef skilja á milli veiða og vinnslu. Það er auðvitað einfalt mál, þetta er allt til staðar.

Hv. þingmaður var líka með útúrsnúning hvað það varðaði að benda á að þá mættu ekki einhverjir grásleppukarlar salta hrognin sín og einyrkjar sem hefðu saltað fiskinn sinn kannski einhvers staðar úti á landi mættu það ekki heldur. Við leggjum hér til að skipuð verði nefnd til að setjast yfir það með hvaða hætti megi koma þessu fyrirkomulagi á. Auðvitað þurfa menn að útfæra slík atriði. Engum dettur í hug að hægt sé að aðskilja veiðar og vinnslu um borð í frystitogara. Við erum ekki að fara fram á það. Við erum að fara fram á að menn finni einfaldar, skýrar og framkvæmanlegar leiðir til þess að það geti orðið eðlilegt viðskiptaumhverfi í sjávarútvegi. Það er ekki núna og umræðan í dag hefur sýnt ákaflega vel fram á það. Hér hafa menn komið í ræðustól og upplýst það að þeir geri sér fullkomlega grein fyrir því að sjávarútvegurinn á Íslandi, stóru fyrirtækin í landinu séu að borga miklu lægra fiskverð en þau ættu að gera miðað við verðmæti fisksins. Sömu sjávarútvegsfyrirtæki eða forráðamenn þeirra hafa skrifað undir það að leita skuli hæsta verðs til þess að finna út hvað sjómennirnir eigi að fá. Það er ekki rétt gefið. Það þarf auðvitað að koma á skynsamlegu, skilvirku og heiðarlegu kerfi. Á meðan tvískinnungurinn er með þeim hætti sem hann hefur verið fram að þessu í þessari grein þá er ekki von að vel fari.

Hv. þm. Halldór Blöndal hélt því fram að fólk mundi missa vinnuna unnvörpum í fiskvinnslu ef þetta gerðist. Ég er honum svo innilega ósammála um það. Ég er algjörlega sannfærður um að ef við kæmumst yfir í kerfi þar sem miklu stærri hluti fisksins færi um markaði þá yrðu miklu fleiri fiskvinnslur starfræktar í landinu á hinum ýmsu stöðum vegna þess að aðgangurinn að fiskinum ykist auðvitað og sérhæfingin gæti fengið að njóta sín við fiskvinnslu og útflutning á fiski.

Það er svo sérstakt við þetta allt saman að það er í raun og veru bara nóg að fara á námskeið sem er í því fólgið að kynna sér rekstur fyrirtækja sem hafa verið rekin á undanförnum árum í fiskvinnslu án útgerðar til þess að sjá ljósið í þessu máli. Ég ráðlegg hv. þm. Halldóri Blöndal að fá sér námskeið af þessu tagi, fara í gegnum þetta, láta menn sem hafa staðið í þessum rekstri sýna sér þessi fyrirtæki og hvað þau hafa verið að gera á undanförnum árum. Þá held ég að hljóti að renna upp fyrir honum eins og öllum öðrum sem hafa séð þessa hluti hvað hægt er að gera með því að láta markaðinn hjálpa til, láta markaðinn ráða því hverjir fá hráefnið í hendurnar og gefa fyrirtækjunum tækifæri til að komast að því hráefni. Auðvitað mun það gerast að lokum. Íhaldsmenn munu auðvitað ekki halda þessu fyrirkomulagi til enda en þeir geta tafið það og geta tafið það árum saman. Þeir hafa gert það fram að þessu og munu halda áfram að reyna að gera það og það er auðvitað mjög slæmt að svo skuli vera.

Ég ætlaði bara að koma því skila sem ég hef nú þegar sagt. Mér finnst dapurlegt að þeir sem hér hafa talað af hálfu stjórnarliða skuli ekki vera tilbúnir til að skoða þessi mál vandlega en vona menn verði tilbúnir til þess að fara í gegnum málið í sjávarútvegsnefnd og koma því aftur inn í sali Alþingis þannig að menn geti tekið afstöðu til þess. Satt að segja verður maður alltaf að halda í vonina um að að lokum sleppi menn úr klónum á hagsmunaaðilunum í sjávarútvegi hvað þessi málefni varðar og láti ekki sífellt einhverja einstaka aðila sem ráða þar ferðinni og hafa gert í gegnum tíðina hafa vit fyrir sér, hagsmunaaðila sem horfa bara á sitt eigið fyrirtæki og óttast allar breytingar, eru logandi hræddir við að standa sig ekki á markaðnum ef þeir þurfa að standa frammi fyrir því að bjóða í eigið hráefni og það þótt þeir eigi sjálfir fyrirtækin sem veiða fiskinn. Það er ekki hátt risið á slíkri afstöðu, það verð ég að segja. Ég vona bara, hæstv. forseti, að við fáum góða niðurstöðu í sjávarútvegsnefndinni.