131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[17:34]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um endurskoðun á sölu Símans, þeirri ákvörðun sem ríkisstjórnin hefði tekið um að selja skuli Símann.

Í tillögunni sem hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur mælt fyrir segir svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að endurskoða fyrirætlanir um sölu Símans með það að markmiði að tryggja eðlilega samkeppni á fjarskiptamarkaði og uppbyggingu á fjarskiptaneti landsins.“

Lögð er áhersla á að grunnnet Símans verði skilið frá öðrum rekstri.

Rétt er að minna á í þessu sambandi að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fluttu einnig tillögu fyrr í haust á þingskjali 4 — það er 4. mál sem skráð var inn til þings í haust — um að stöðvað verði söluferli Landssímans og farið ofan í hvernig staða mála er, endurskoða þetta í heild sinni og kanna hvernig staða mála er í fjarskiptum í landinu og hvernig þeim verði best komið til frambúðar. Það er alveg ljóst að fjarskipti, símaþjónusta, eru hluti grunnalmannaþjónustu sem allir landsmenn eiga að hafa jafnan aðgang að. Þetta er einn af þeim þáttum sem skapa grunn fyrir atvinnulíf, búsetu og samskipti fólks í landinu.

Það var lögð áhersla á það á sínum tíma, í upphafi síðustu aldar, að koma síma um allt land, á alla bæi landsins. Lögðu margir mikið á sig í þeim efnum, bæði hið opinbera og einstaklingar, bændur og jarðeigendur. Ég man eftir því sem krakki að þá var ég að aðstoða við að draga út símastaura og það var allt saman gefins vinna. Þjóðin tók þátt í því. Það var þjóðarátak að koma upp fjarskiptum, símaþjónustu, um allt land.

Svo á allt í einu nú að taka þetta þjóðarátak, allt í einu geta ráðherrar sem eru blindaðir í sínum einkavæðingardraumum ákveðið að taka þennan sameiginlega þjóðarauð, markaðsvæða hann og selja hann. Það er umræða sem við erum búin að taka oft hér og verður aldrei of oft tekin þangað til þetta ferli verður stöðvað.

Sú tillaga sem hér er til umræðu um að endurskoða þetta söluferli allt saman og taka grunnnetið frá er góðra gjalda verð og vert að hún sé skoðuð. Þá flokkar maður hvað er grunnnet og hvað grunnþjónusta. Vegurinn og nauðsynleg þjónusta við þá samgönguæð sem grunnnetið er mundi þá flokkast undir þessa almennu grunnþjónustu.

Við höfum heyrt það síðustu dagana að heyrst hafa varúðarraddir frá einmitt svokölluðum samkeppnisaðilum um að stórhættulegt sé að selja þetta grunnnet, þá grunnþjónustu sem öllum á að standa til boða, bæði neytendum og líka þeim sem vilja bjóða fram þjónustu sína í gegnum þetta grunnnet.

Það er kannski nýtt að það skuli koma hljóð úr þessu horni, einmitt úr samkeppnishorninu, um að ekki séu svo miklar líkur til þess að hér á Íslandi skapist nokkurn tíma það samkeppnisumhverfi að hér hlaupi hver um annan þveran til að ná viðskiptum vítt og breitt um landið á grundvelli samkeppni. Ætli það sé ekki að renna upp fyrir mönnum það ljós að það verði nú aldrei rekið nema í raun eitt símafyrirtæki hér á landi sem getur staðið undir því að geta veitt þjónustu úti um allt land?

Við getum fengið hér nokkur fyrirtæki sem geta fleytt rjómann af viðskiptum á alþéttbýlustu svæðunum. Þau geta komið og rúllað og komið og rúllað, eins og reynslan hefur verið undanfarin ár. Ég veit ekki hvað margar kennitölur eru búnar að koma upp nú á undaförnum fimm árum í fjarskiptamálum á stórþéttbýlissvæðinu. Þær hafa komið og farið, allar saman sprottið upp á grundvelli hugsjóna um frjálsa samkeppni og allar dáið fyrir sömu hugsjón, risið aftur í nýrri kennitölu og dáið aftur. Nú stöndum við því nánast uppi með tvö fyrirtæki. Annað er Og Vodafone sem rann saman úr nokkrum slíkum dánarbúum. Og Vodafone er samansafn af dánarbúum fjarskiptafyrirtækja sem öll voru byggð upp í anda þessarar hugsanlegu frjálsu samkeppni. Öll hafa þau sjálfsagt kostað sitt, sjálfsagt skilað einhverju.

Raunin verður náttúrlega bara sú að hér verður ekki nema eitt fjarskiptanet og fjarskiptakerfi. Hví skyldum við líka vera að byggja upp tvöfalt kerfi út um allt land? Það væri svipað og við færum að bjóða það að byggja vegi og Samskip væri með sinn veg og Eimskip með sinn veg o.s.frv. og svo kæmu sjálfsagt þingmenn með annan veg. Það er sams konar hugsunarháttur á bak við það og að hér væri farið að leggja gagnaflutningsnet og -kerfi um allt land hlið við hlið í mörgum brautum.

Frú forseti. Því er afar brýn ástæða til þess að Alþingi krefji ríkisstjórnina um að taka þetta mál allt saman til endurskoðunar, þ.e. söluferli Símans. Það er nöturlegt að Halldór Ásgrímsson, hæstv. forsætisráðherra, skuli vera formaður einkavæðingarnefndar, formaður þess flokks sem er, eins og komið hefur fram í skoðanakönnunum, hvað mest á móti einkavæðingu Landssímans. Íbúar hinna dreifðu byggða sem margir hafa til þessa stutt Framsóknarflokkinn hafa verið alfarið á móti einkavæðingu Landssímans, á móti einkavæðingu þessara fjarskipta vegna þess að þeir sjá í því að þeirra hagur verði fyrir borð borinn. Og Síminn er nú ekki aldeilis á horleggjunum. Ekki er hann baggi á þjóðinni. Hann er að skila kannski um þrem milljörðum króna í arð á ári. Tveir, þrír milljarðar í tíu ár, arðurinn, er sama upphæð og menn voru að hugsa um að leggja í byggingu sjúkrahúss. Væri ekki nær að nota arðinn af Landssímanum og styrk Landssímans til þess að byggja upp öflugt og gott fjarskiptakerfi í landinu? Það er (Forseti hringir.) okkar hlutverk hér.