131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[17:42]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að Síminn hefur beitt bæði verðlagningu og tæknilegum hindrunum til þess að koma í veg fyrir að önnur fjarskiptafélög geti boðið upp á nægilega góða þjónustu. Það gildir ekki síst um hinar dreifðu byggðir.

Þetta mál sem hér liggur undir í umræðunni er þess vegna ekki síst landsbyggðarmál. Við þingmenn sem höfum verið iðnir við að fara út á landsbyggðina til þess að tala við fólkið heyrum þetta nánast á hverjum einasta fundi. Menn koma upp og hafa áhyggjur af því að verið sé að skapa tvenns konar samfélag innan hins netvædda heims á Íslandi, þ.e. annars vegar samfélag sem býr við háhraðaþjónustu, hágæðaþjónustu að því er netfjarskipti varðar og hins vegar samfélag úti á landi sem býr við miklu verri kost. Á tímum þegar fjarmenntun, fjarkennsla og hvers konar fjarviðskipti færast í vöxt skiptir þetta mjög miklu máli. Ég geng svo langt, frú forseti, að halda því fram að þetta mál muni skipta sköpum varðandi samkeppnishæfni landsbyggðarinnar.

Ég vil hins vegar í upphafi máls míns, frú forseti, spyrja: Hvar eru hæstv. ráðherrar sem þetta mál varðar? Hvar eru hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. samgönguráðherra? Nú hefur sá þingmaður sem hér stendur ekki lagt í vana sinn að fá ráðherra flutta hreppaflutningum úr ráðuneytum sínum hingað til þess að vera við umræðu. En það er sérstök ástæða fyrir því að ég spyr eftir þessum tveimur hæstv. ráðherrum. Hún felst í því að í gær og í dag hafnaði forseti Alþingis því að þingmaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, fengi að eiga orðastað utan dagskrár um dreifikerfið og uppbyggingu þess við hæstvirta ráðherra. Það var rökstutt með því að þetta mál væri hér í umræðu undir. Þess vegna fyndist mér nú í lagi að þessir ágætu ráðherrar létu sjá sig hér.

Sú tillaga sem hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur mælt fyrir og flytur ásamt öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar er í anda þeirrar stefnu sem Samfylkingin hefur mótað á þessu sviði. Við teljum fullkomlega í lagi að flytja samkeppnisreksturinn sem tilheyrir Símanum yfir á einkamarkað. Við höfum sett það sem algjört skilyrði fyrir stuðningi okkar við það mál að grunnnet Símans yrði áður skilið frá öðrum rekstri og tryggt að eignarhald grunnnetsins verði til framtíðar óháð öðrum fyrirtækjum í fjarskiptaþjónustu.

Ég hóf mál mitt, frú forseti, á að lýsa því yfir að yfirburðir Símans á fjarskiptamarkaði hefðu leitt til þess að hér hefur ekki þróast eðlileg samkeppni. Hin sterka staða Landssímans hefur leitt til þess að smærri fyrirtæki, sem hafa reynt að þróa þjónustu og varning sem tengjast og eru háð fullkomlega ótrufluðum aðgangi að dreifikerfinu, hafa mjög átt í vök að verjast. Staðan er einfaldlega þannig að í dag liggja fjölmargar kvartanir á borði Póst- og fjarskiptastofnunar sökum einokunartilburða Símans. Það er staðreynd að Síminn hefur hreðjatak á þessum markaði eins og er nú þegar. Eigi síðan að einkavæða Símann með manni og mús, dreifikerfinu og öllu saman, óttast ég að það muni leiða til þess að hér verði til gríðarlega sterkt fyrirtæki sem hafi í reynd einokunarstöðu. Það er algjörlega í andstöðu við þá stefnu sem Samfylkingin hefur í þessum efnum. Við viljum sem mest frelsi og óhefta samkeppni en hins vegar liggur ljóst fyrir að ríkisstjórnin fetar í þessu máli slóð sem gengur í þveröfuga átt.

Ríkisstjórnin hefur haldið því fram að þetta mál hafi verið skoðað fyrir fjórum árum og þá hafi niðurstaðan verið sú að það væri tæknilega annmörkum bundið að skilja að grunnnetið og annan rekstur Símans. Í dag hefur tæknin einfaldlega breyst. Það er auðveldara en áður, það auðvelt að meira að segja helstu fjarskiptafyrirtæki sem eiga í keppni víð Símann lýsa því yfir að tæknilega sé ekkert að vanbúnaði að gera það.

Það hlýtur að skipta máli þegar önnur fyrirtæki, eins og Og Vodafone, eMax og samtök þeirra sem selja þjónustu yfir dreifikerfið, taka höndum saman og lýsa því yfir að það komi ekki til greina frá þeirra sjónarhóli að selja dreifikerfið með öðrum hluta Símans. Forsvarsmenn þeirra hafa lýst því yfir að það verði aldrei friður um þá ráðstöfun. Dugar þetta ekki, frú forseti, til þess að ríkisstjórnin staldri a.m.k. við og skoði hvort ekki sé rétt að endurskoða málið? Ég spyr, frú forseti: Hvar eru talsmenn Framsóknarflokksins í þessu máli? Ég spyr sérstaklega um talsmenn Framsóknarflokksins í fjarskiptamálum. Þeir gerðu sig breiða á dögunum þegar menn voru að ræða þessi mál og lýstu því yfir að þeir hefðu það eitt að markmiði að verja samkeppnishæfni landsbyggðarinnar í þessu efni.

Það er alveg ljóst og liggur fyrir, t.d. í yfirlýsingu annarra fjarskiptafyrirtækja og þeirra fyrirtækja sem selja þjónustu m.a. til landsbyggðarinnar, að ef núverandi áætlun ríkisstjórnarinnar verður ekki breytt muni landsbyggðin sitja skör lægra. Meginmarkmiðið á að vera að hér ríki frjáls samkeppni án nokkurra viðskiptahindrana. Það gerist aldrei á meðan Landssíminn hefur þau ofurtök sem hann hefur í dag og á meðan það á líka að tryggja honum slík ofurtök til frambúðar með því að láta grunnnetið fylgja sölu samkeppnishluta Símans.

Samfylkingin hefur því lagt fram tillögu um að endurskoða þessar fyrirætlanir. Grunnur þeirrar endurskoðunar á að vera að skilja dreifikerfi Símans frá öðrum rekstri og tryggja að eignarhaldið verði til framtíðar óháð öðrum fyrirtækjum í fjarskiptaþjónustu.

Það er athyglisvert að nákvæmlega sama fyrirkomulag og við erum hér að leggja til hefur ríkið sjálft tekið upp varðandi raforkumarkaðinn. Það hefur skilið flutningsnet raforkunnar frá annarri starfsemi orkufyrirtækja. Ég rifja upp hver var helsta ástæða ríkisvaldsins til þess að gera það. Það var, frú forseti, til að tryggja eðlilega samkeppni. Ef það þarf að skilja grunnnetið frá á raforkumarkaðnum til þess að tryggja eðlilega samkeppni þá þarf líka að gera það varðandi fjarskipti.

Ég legg til, frú forseti, að þingheimur samþykki þessa tillögu Samfylkingarinnar.