131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[17:51]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það hefur verið nefnt í þeim ræðum sem haldnar hafa verið að eðlilegt sé að talsmenn stjórnarflokkanna mættu í þessa umræðu. Það er ekki eins og að á ferðinni sé eitthvert smámál, þ.e. sala á þessu stóra fyrirtæki okkar landsmanna, Símans. Ég spyr frú forseta hvort það sé líklegt að hæstv. ráðherrar sem hér voru nefndir, t.d. hæstv. samgönguráðherra eða hæstv. forsætisráðherra, verði tiltækir til að mæta í þingsal og ræða þetta mál. Ég heyri að hæstv. forseti hugsar sig um.

Mér finnst þetta mál stærra en svo að hægt sé að smeygja sér fram hjá þeirri umræðu. Hér ættu því að mæta í salinn talsmenn stjórnarflokkanna hvað þessi málefni varðar. Hér er ekki sjáanlegur formaður samgöngunefndar, sem ætti þó að vera hér staddur. Hér er enginn talsmaður Framsóknarflokksins í salnum nema frú forseti, sem ég veit reyndar að er á mælendaskránni og ég fagna því. En frá Sjálfstæðisflokknum hafa menn ekki verið margir mættir. En núna komnir í dyrnar þeir sem hafa líklega forræði í þessu máli, eða hvað?

Ég spyr aftur forseta þingsins hvort við megum eiga von á því að hæstv. samgönguráðherra geti verið hér tiltækur.