131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[18:28]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Það kemur í ljós að til grundvallar öllum stóru orðunum hér úr ræðustól frá þingmönnum Samfylkingarinnar um aðgangshindranir, að Landssíminn beiti hindrunum, bæði tæknilegum og með verðlagningu til að koma í veg fyrir samkeppni, stendur í rauninni ekkert á bak við. Þetta eru ekkert annað en sögusagnir. Mér finnst alveg lágmark að til grundvallar svona stórum staðhæfingum liggi einhverjar upplýsingar, að menn byggi mál sitt hér á einhverjum rökum og á einhverjum gögnum sem þeir geta vísað til.

Hér hafa mörg stór orð verið sögð, að Síminn standi sig illa gagnvart öðrum fyrirtækjum, hann hafi hreðjatak o.s.frv. En ég vek athygli á því að í skrifuðum texta ályktunarinnar sjálfrar segir að yfirburðir Símans á fjarskiptamarkaði hljóti að fela í sér verulegan vanda. Hver hefur nokkurn tíma sagt að það sé bara ljótt út af fyrir sig að vera myndarlegur? Þetta er spurningin um hvort Síminn er einhvers staðar að misnota aðstöðu sína. Ég minni hv. þm. Lúðvík Bergvinsson á að fjarskiptalögin áttu að tryggja að það væru engar aðgangshindranir og úrskurðaraðilinn í þessum málum er Póst- og fjarskiptastofnun.

Frú forseti. Nóg um þetta. Í tillögunni er gert ráð fyrir að grunnnet Símans sé skilið frá öðrum rekstri og tryggt að eignarhald þess verði til framtíðar óháð öðrum fyrirtækjum í fjarskiptaþjónustu. Nú langar mig að spyrja hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hvað hann ætli, og Samfylkingin, flutningsmenn tillögunnar, að gera við önnur grunnnet sem byggð hafa verið upp því undir það get ég tekið í málflutningi hv. þingmanns að er þjóðhagslega óhagkvæmt. Hvað ætlið þið að gera við önnur fyrirtæki og þetta óháð öðrum fyrirtækjum? Vill Samfylkingin að það sé áfram rekið af ríkinu eða á það að vera sérstakt einkafyrirtæki sem rekur grunnnetið? Það er því ljóst að þessi tillaga til þingsályktunar kallar í rauninni fram fleiri spurningar en hún nokkurn tíma svarar.