131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[18:33]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég heyrði ekki betur en að dregið væri í efa að Síminn hefði ekki alltaf farið rétt að í samkeppnismálum. Ég hef hins vegar undir höndum bréf frá Inter, sem eru samtök fyrirtækja sem veita Símanum samkeppni. Ég hef fylgst náið með þrautagöngu þeirra við að ná fram rétti sínum gegn risanum á markaðnum, Símanum. Það er í raun með ólíkindum og lýsir sérkennilegum viðhorfum að þingmaður úr Framsóknarflokknum, sem ber ábyrgð á fjárskorti Samkeppnisstofnunar og því verklagi sem þar tíðkast, skuli láta eins og allt sé í himnalagi hvað þessa samkeppni varðar. Ég gæti rakið fjölmörg dæmi um annað.

En ég ætla að grípa hér niður í bréf frá ritara Inter. Þar segir að árið 2004 hafi málsmeðferðartími að meðaltali verið rúmir 16 mánuðir hjá Samkeppnisstofnun, til að ná fram úrskurði um kvörtun. Þegar loksins tókst að fá botn í málið var tilboðið sem var kvartað yfir, sem Síminn hafði að öllum líkindum boðið ólöglega, runnið út og sá úrskurður sem Samkeppnisstofnun, undir stjórn hæstv. viðskiptaráðherra sem ber ábyrgð á þessu sleifarlagi, hafði ekkert að segja.

Það er einnig athyglisvert, í allri umræðunni um Samkeppnisstofnun og samkeppnislög, um grunnnetið og hvernig eigi að selja Símann, að Framsóknarflokkurinn dregur vagninn í umræðunni. Skoðanakannanir segja að flokksmenn Framsóknar séu mótfallnir þessari sölu. Ég veit ekki hvað hv. þingmönnum Framsóknarflokksins gengur til, annað en að þjóna Sjálfstæðisflokknum í þessu máli. Það kom fram í umræðunni fyrr í dag að Sjálfstæðisflokkurinn er greinilega ekki á því að byggja upp heiðarlega viðskiptahætti. Þingmenn flokksins sáu mikla galla á því hvað varðar fisksölu og aðskilnað veiða og vinnslu. Framsóknarflokkurinn tók ekki þátt í þeirri umræðu og virtist þjóna Sjálfstæðisflokknum þar og það er með ólíkindum. Ég tel að framsóknarmenn ættu að huga að því hvort almennur vilji flokksmanna birtist í þeirri stefnu sem þeir framfylgja eða hvort þar ráði aðeins þjónkun B-deildarinnar við A-deild Sjálfstæðisflokksins.

Það er staðreynd að þeir sem ráða munu yfir grunnnetinu munu komast í einokunaraðstöðu. Það þýðir ekki að horfa fram hjá því. Menn hafa t.d. aðra stefnu þegar kemur að flutningi á raforku. Þá er ákveðið að hafa flutningskerfið sér. En þegar kemur að kerfi sem á að flytja gögn og veita fyrirtæki einokunaraðstöðu við slíka flutninga horfir málið allt í einu öðruvísi við. Þá á ekki að vera sérbókhald eða aðskilnaður þar á milli.

Auðvitað eiga menn að skoða málið og reyna að tryggja samkeppni á þessu sviði eins og öðrum. Það er í raun furðulegt að horfa upp á að menn vilji selja Símann í einu lagi með grunnnetinu og þeirri þjónustu sem rekin er í samkeppni. Hvað gengur mönnum til? Það hefur aldrei komið fram, ekki hjá hæstv. ráðherrum. Þeir sjá ekki sóma sinn í því að vera viðstaddir umræðuna og útskýra mál sitt.

Nú er það svo að ég hef a.m.k. í tvígang gengið eftir því að hæstv. fjármálaráðherra svaraði fyrir það fyrirtæki sem hann ber ábyrgð á. Ég hef ítrekað spurt hann út í það hvort hann hafi gengið úr skugga um það að fyrirtæki sem hann ber ábyrgð á fari að samkeppnislögum. Svarið var í bæði skiptin með ólíkindum. Hann hefur ekki gengið úr skugga um hvort þar sé farið að landslögum. Nei, svarið er eitthvað á þá leið að hæstv. ráðherra sé ekki kunnugt um hvort fyrirtækið hafi farið að landslögum. Er ekki metnaðurinn meiri en svo að ráðherra sjái ekki ástæðu til að ganga úr skugga um að ríkisfyrirtæki í samkeppni við einkafyrirtæki fari að landslögum í samkeppnismálum? Mér finnst það undarlegt.