131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[18:49]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á að biðjast afsökunar á því ef ég hef rangtúlkað orð hv. þm. Jónínu Bjartmarz. En ég á síður von á því að þessi ágætu samtök, Inter, séu sífellt að sækja rétt sinn gagnvart ríkisfyrirtækinu sem er stjórnað af ríkisstjórninni til stofnunarinnar sem er stjórnað af hæstv. viðskiptaráðherra, að þau séu sífellt að sækja ef þau hafa ekkert þangað að sækja. Heldur hv. þingmaður að þau séu bara að gera þetta af einhverjum óvitaskap? Það held ég ekki.

Hvað sem því líður væri áhugavert að fá að heyra hvort hv. þingmaður hafi ekki áhyggjur af því að stór meiri hluti hennar eigin flokksmanna sé andvígur sölunni og sérstaklega hvernig eigi að standa að henni.