131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[18:50]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var eitt það aumlegasta sem ég hef heyrt í umræðunni, að hv. þm. Sigurjón Þórðarson láti að því liggja að fyrirtæki á fjarskiptamarkaði sem eru beitt meintri aðgangshindrun með verðlagningu Símans inn á grunnnetið leiti ekki leiðréttinga. Er hv. þingmaður að halda því fram að þau borgi einhvern taxta sem Landssímanum dettur í hug mánuðum og árum saman en leiti ekki til þeirrar stofnunar sem getur og hefur leiðréttinguna á hendi sér? Þetta lýsir alla vega ekki mikilli kunnáttu á rekstri.

Mergur málsins er sá að allir flokkar á þingi stóðu að því að samþykkja fyrirkomulagið um að Landssíminn mundi reka grunnnetið, aðrir ættu frjálsan aðgang að því og við komum á fót því fyrirkomulagi að ákveðin stofnun úrskurðar um það hvort Síminn hlítir lagaskyldunni eða ekki. En grunnurinn undir mál Samfylkingarinnar er að verið sé að beita hindrunum og þess vegna megi undir engum kringumstæðum selja grunnnetið með.

Hitt er svo allt önnur umræða sem við tökum hugsanlega í annan tíma og rétt að halda því til haga að allt sem frá mínum flokki, Framsóknarflokknum, hefur komið fram í málinu, öll afstaða okkar miðar að því hvernig við getum best og mest tryggt eðlilega samkeppni á fjarskiptamarkaði, neytendum og landsmönnum öllum til góða.