131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Landssími Íslands.

360. mál
[12:01]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég vil beina eftirfarandi spurningu til hæstv. fjármálaráðherra:

Hefur Landssími Íslands hf. tryggt fjárhagslegan aðskilnað í þeirri starfsemi sem lýtur sérstaklega að virðisaukandi þjónustu, t.d. internetþjónustu og GSM-farsímaþjónustu?

Þetta mál snýst um það hvort hæstv. fjármálaráðherra og þá ríkisstjórnin hafi yfirleitt áhuga á að tryggja samkeppni á fjarskiptamarkaði og einnig hvort ríkisstjórnin hafi áhuga á því að fyrirtæki í eigu ríkisins fari að lögum.

Ég hef spurt hæstv. fjármálaráðherra þessarar sömu spurningar tvívegis áður og þá hefur orðið fátt um svör. Jú, það hefur fengist upp að Landssímanum sé skylt að fara að lögum. Samt sem áður er eins og það sé ákaflega erfitt fyrir hæstv. fjármálaráðherra að ganga úr skugga um hvort það fyrirtæki sem hann ber ábyrgð á og er handhafi hlutabréfs sem þjóðin á fari að lögum. Þetta er auðvitað með ólíkindum, sérstaklega í ljósi þess að ef á að tryggja frið um einkavæðingu Símans er ótækt að hafa þetta ekki uppi á borðinu og koma ekki samkeppnismálum á tært hvað varðar fyrirtæki í eigu ríkisins. Að vera með það í einhverri leynd og feluleik og fara síðan í alls konar útúrsnúninga þegar spurt er einfaldra spurninga er ekki boðlegt.

Þess vegna ætla ég hér og nú að reyna enn einu sinni að fá það upplýst hvort þetta ágæta fyrirtæki, Landssími Íslands sem hæstv. fjármálaráðherra ber ábyrgð á, fari að lögum sem hann hefur sjálfur bent á í svari sínu að eigi að gera það.