131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Landssími Íslands.

360. mál
[12:07]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Svarið er með sama hætti og áður. Það er greinilegt að ráðherrann er upptekinn og hefur ekki gefið sér tíma til að ganga úr skugga um það hvort Landssíminn hafi farið að lögum. Mér finnst það með ólíkindum. Í stað þess þylur hann hér upp úr lögum um að fyrirtækinu beri að gera það og að þetta sé í einhverjum farvegi. Auðvitað ætti ráðherra og sérstaklega fjármálaráðherra að tryggja það að fyrirtæki sem hann ber ábyrgð á fari að samkeppnislögum, sérstaklega í ljósi þess að eins og alþjóð veit er Landssíminn fastagestur til úrskurðar og aðfinnslu hjá Samkeppnisstofnun. Það ætti að vera metnaðarmál ríkisstjórnarinnar að ganga úr skugga um að fyrirtæki í eigu ríkisins fari að landslögum.

Ég ætla líka að vekja athygli á öðru. Þegar samþykkt var að gera Landssímann að hlutafélagi — svo er að heyra sem hæstv. ráðherra skjóti sér á bak við hlutabréfalög, að fyrirtækið sé orðið hlutafélag og því á ábyrgð stjórnar, eins og svo margt annað eftir að stjórnin tók þátt í ríkisvæðingu — var í nefndaráliti samgöngunefndar mælt með því að setja Landssímann í sölu en þá var einmitt talað um að efla og búa vel að eftirlitsaðilum og að þeim yrði tryggður nægur mannafli og fjármagn til að sinna því eftirliti sem þeim væri ætlað. Þannig má ætla að það þyrfti að ráða í 2–3 stöðugildi vegna aukinnar samkeppni á fjarskiptamarkaði. Þetta hefur ekki verið gert. Nei, í staðinn kemur fjármálaráðherra hér, segist ekkert vita og skýlir sér á bak við hlutabréfalögin.