131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Kynja- og jafnréttissjónarmið í fjárlagagerð.

361. mál
[12:13]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir leggur hér fyrir mig fyrirspurn sem hún hefur þegar kynnt, hefur reyndar að hluta til svarað fyrirspurninni sjálf. Það er vissulega rétt sem kom fram í máli þingmannsins að það mun hafa verið á árinu 2002 sem settur var á fót norrænn starfshópur á vegum fjármálaráðherra Norðurlandanna. Honum var falið að gera tillögur um norrænt verkefni um samþættingu fjárlagagerðar og jafnréttis. Málið á sér þó lengri aðdraganda, eins og fram er komið, en á þessum vettvangi, þ.e. á vettvangi norrænu fjármálaráðherranna, hefst það með þessu verkefni.

Í hópnum voru einn fulltrúi frá fjármálaráðuneyti hvers lands og einn fulltrúi jafnréttismála í hverju Norðurlandanna. Starfshópurinn setti fram þá tillögu að unnið yrði að samþættingu fjárlagagerðar og jafnréttis í hverju landi fyrir sig með tilraunaverkefni en auk þess yrði ráðinn verkefnisstjóri sem hefði yfirumsjón með fræðslu og utanumhaldi um verkefnin.

Með íslenska verkefninu er ætlunin að skoða hvernig fjármunir á sviði almannatryggingakerfisins dreifast á milli kynjanna. Stofnaður hefur verið stýrihópur sem stjórnar verkefninu og í honum sitja fulltrúar frá fjármálaráðuneytinu, Jafnréttisstofu og Tryggingastofnun ríkisins. Drög að verkefnaáætlun liggja fyrir og er fulltrúi frá Jafnréttisstofu verkefnisstjóri. Áætlað er að norræna verkefnið standi til ársloka 2006 en áætlað er að íslenska verkefninu geti jafnvel verið lokið nokkru fyrr. Norræna verkefninu mun ljúka með skýrslu og gerð handbókar um það hvernig nýta megi reynslu úr þessum tilraunaverkefnum til að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið á öðrum sviðum opinberrar starfsemi.

Við gerum okkur vonir um að út úr þessu geti komið góð niðurstaða og vísbendingar um það hvernig hægt sé að halda þessu starfi áfram.

Út af spurningu þingmannsins varðandi fjárveitingar til þessa verkefnis er mér ekki kunnugt um að þar hafi verið nein sérstök vandamál. Það hefur verið gert ráð fyrir því að kosta þetta innan þeirra ramma sem viðkomandi stofnanir hafa.