131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Kynja- og jafnréttissjónarmið í fjárlagagerð.

361. mál
[12:15]

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svarið og kýs að túlka það svo að gangur mála sé góður og fullur vilji til að styðja vel við bakið á þessu verkefni.

Ég tel jafnframt tilefni til þess að spyrja miðað við gang mála: Munum við sjá afrakstur af þessu verkefni í vinnslu fjárlaga á næstunni? Gæti hæstv. fjármálaráðherra upplýst þingheim um það hvenær hann sér fyrir sér að við getum sagt með sóma að jafnréttissjónarmið séu samtvinnuð inn í fjárlagagerð á Alþingi? Það er alveg ljóst að svo er ekki í dag, menn eru að fikra sig áfram alls staðar á Norðurlöndunum. Hin löndin eru komin eitthvað lengra en við, enda með mun meira umleikis, meiri sérfræðinga og miklu öflugri jafnréttisbaráttu á alla kanta. Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvenær megum við búast við því að sjá árangur, að sjá áhrif á fjárlagagerð okkar á Íslandi?